Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Garðmenn afhenda íbúðir aldraðra
Mánudagur 10. nóvember 2003 kl. 17:01

Garðmenn afhenda íbúðir aldraðra

Gerðahreppur afhenti um helgina sex nýjar íbúðir af tíu sem sérstaklega hafa verið byggðar fyrir aldraða í Garðinum. Það er Húsagerðin ehf. sem byggði íbúðirnar en þær standa við Melteig í Garði, sem er framtíðaruppbyggingarsvæði í málefnum aldraðra vestan við Garðvang í Garði.
Ingimundur Þ. Guðnason, oddviti Gerðahrepps, sagðist við afhendingu íbúðanna vera stoltur af því að fá að taka þátt í því að afhenda fyrstu íbúðirnar sem sérstaklega eru ætlaðar öldruðum í Garði. Þá sagði Ingimundur að stórt skref hafi verið stigið í þágu aldraðra og hann sagði það von sína að þau ættu eftir að vera fleiri. Hreppsnefnd Gerðahrepps vill sjá frekari uppbyggingu á svæðinu og með það að leiðarljósi hefur sveitarstjórn látið vinna skipulag að framtíðaruppbyggingu svæðisins vestan Garðvangs. V.A. arkitektar hafa unnið framtíðarsýn fyrir Gerðahrepp og kynnti Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt þær fyrir gestum í Garðinum um helgina. Ingimundur benti á að ríkisvaldið hafi látið í veðri vaka að sveitarfélögin hafi ekki staðið sig sem skildi í uppbyggingu á ýmis konar þjónustu fyrir aldraða og skorað á þau að gera betur. „Við sem sitjum í Hreppsnefnd Gerðahrepps teljum að við séum að koma til móts við þau sjónarmið með þeim íbúðum sem nú eru afhentar og væntum þess af ríkisvaldinu að það styðji okkur í framtíðinni til uppbyggingar svæðisins“, sagði Ingimundur við þetta tækifæri.
Bygginganefnd íbúða aldraðra í Garði er skipuð þeim Sigurði Ingvarssyni, Ólafi Kjartanssyni og Arnari Sigurjónssyni. Starfsmaður nefndarinnar er Sigurður Jónsson sveitarstjóri í Garði.
Eftir að íbúðirnar sex höfðu verið afhentar var gestum boðið upp á kaffiveitingar og fólki boðið að skoða eina af þeim fjórum íbúðum sem ennþá er óráðstafað. Þar er um að ræða þriggja herbergja íbúðir og var sýningaríbúðin prýdd húsgögnum frá Bústoð í Reykjanesbæ.

Mynd frá afhendingu íbúðanna í Garðinum um helgina. Ingimundur Guðnason oddviti tekur við lyklum frá Áskeli Agnarssyni og Anton Jónsson fylgist með.
VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024