GARÐBÚAR VÍGJA NÝJAN LEIKSKÓLA
Nýr tveggja deilda leikskóli var vígður í Garðinum síðastliðinn sunnudag og búa Garðahreppsbúar nú við nægt vistrými á leikskólum og biðlistar úr sögunni. Nýi leikskóli, sem er 331 fermetri að stærð (1223 rúmmetrar) var hannaður af Teiknistofunni Stikan, Verkfræðistofa Suðurnesja ehf. sá um burðarþol, lagnir og eftirlit. Rafmiðstöðin sá um raflagnir en lóðarhönnun var í höndum Andra Helga Sigurjónssonar, landslagsarkitekts. Hafist var handa við byggingu skólans 10. nóvember 1998 en framkvæmdir gengu framar vonum og er frágangur húss og umhverfis til fyrirmyndar. Húsagerðin var aðalverktaki.Jón Hjálmarsson, formaður byggingarnefndar, sagði kostnaðaráætlanir standast. „Áætlaður heildarkostnaður byggingar, lóðar og tóla var 48,5 milljónir og virðast þær áætlanir ætla að standast.“Á vígsluathöfninni var rakin byggingarsaga hússins, húsið blessað af sr. Birni Sveini Björnssyni og ungir söngvarar og listamenn skemmtu gestum.