Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Gangur gossins helst stöðugur
Við gosstöðvarnar í gærkvöldi. VF-mynd: Jón HIlmarsson
Miðvikudagur 21. apríl 2021 kl. 20:36

Gangur gossins helst stöðugur

Skjálftavirkni í kvikuganginum milli Fagradalsfjalls og Keilis hefur minnkað frá því sem var í síðustu viku. Í gærkvöld varð skjálfti af stærðinni 4.1 um 3 km NA af Þorbirni, undir Sundhnjúkagígum. Þetta er stærsti skjálfti sem mælst hefur á Reykjanesskaga síðan 15. mars eða frá því áður en gos hófst. Þessi skjálfti tengist spennuhreyfingum í jarðskorpunni vegna eldgossins og myndi flokkast sem svokallaður gikkskjálfti. Þetta kom fram á fundi Vísindaráðs almannavarna sem hittist á fjarfundi í dag til að ræða stöðuna á eldgosinu við Fagradalsfjall. Nýjustu mælingar og gögn gefa til kynna að gangur gossins helst stöðugur.

Frá því að gosið hófst fyrir rúmum þrjátíu dögum hefur komið upp fremur þunnfljótandi kvika með lítilli sprengivirkni og tiltölulega stöðugu hraunrennsli. Þó hefur gosið verið síbreytilegt. Þessi breytileiki hefur lýst sér í að ný gosop hafa orðið til og að virkni hefur verið mismikil í gígum. Verið er að gera nýjar hraunflæðismælingar í dag, mælingar sem gefnar voru út í byrjun vikunnar sýna að í samanburði við flest önnur gos er rennslið tiltölulega stöðugt. Því er ekkert er hægt að fullyrða út frá þessum mælingum um það hversu lengi gosið mun standa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Unnið að frekari þróun á gasdreifingarlíkani

Fram kom á fundinum að Veðurstofan og Umhverfisstofnun hafa unnið að því að efla vöktun og upplýsingagjöf vegna gasmengunar í byggð og eins við gosstöðvarnar. Veðurstofan mun taka að sér að vakta gildi mengunar í byggð allan sólarhringinn og gera almannavörnum viðvart ef gildin fara yfir heilsufarsmörk.

Veðurstofan hefur einnig í samvinnu við sérfræðinga hjá Umhverfisstofnun verið rýna í gögn til að meta hversu áreiðanleg spálíkön eru varðandi gasmengun í byggð.

„Það hefur komið hefur í ljós að gasdreifingarlíkanið er að "ofspá" eins og við köllum það. Magn af SO2 sem líkanið spáir að nái niður á yfirborð jarðar er meira en mælist síðan í raun,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu á Veðurstofu Íslands.

„Þetta kallar á frekari þróun á spálíkaninu okkar og má segja að þetta eldgos er að gefa okkur verðmætar upplýsingar um hvernig gasmengun hagar sér í andrúmsloftinu. Þær vonandi nýtast okkur til þess að bæta þjónustu Veðurstofunnar þegar kemur að spá fyrir um gasmengun,“ segir Elín.