Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Gamli vitinn á Garðskaga ekki lengur höfuðlaus
    Ljóshúsið hangandi neðan í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
  • Gamli vitinn á Garðskaga ekki lengur höfuðlaus
    Ljóshúsið hangandi neðan úr þyrlunni yfir gamla vitanum á Garðskaga.
Mánudagur 2. maí 2016 kl. 06:10

Gamli vitinn á Garðskaga ekki lengur höfuðlaus

– Iðn- og tæknibylting Íslands hefst með tilkomu vita á Reykjanesi og Garðskaga

Ásýnd gamla vitans á Garðskaga hefur tekið breytingum. Vitinn er kominn með hatt. Ljóshús er komið á vitann að nýju næstum 70 árum eftir að það var tekið niður og flutt vestur í Breiðafjörð. Það er félagsskapur um íslenska strandmenningu sem stóð fyrir því að ljóshúsið var smíðað. Verkefnið hefur haft nokkurn aðdraganda en undanfarið eitt og hálft ár hefur verið unnið af krafti að verkefninu. Það var svo á föstudaginn í þarsíðustu viku sem þyrla frá Landhelgisgæslunni kom í Garðinn og lyfti ljóshúsinu á sinn stað.

Vitafélagið er áhugafélag og grasrótarfélag um íslenska strandmenningu. Þegar félagið var stofnað árið 2003 vissi enginn hvað orðið strandmenning þýddi. Flestir tengdu það við suðrænar sólarstrendur og því var ákveðið að nafn félagsins yrði Vitafélagið og vitinn væri menningarvitinn og vörður strandmenningarinnar í heild.

Sigurbjörg Árnadóttir er formaður Vitafélagsins - íslensk strandmenning og Norrænu strandmenningarsamtakanna. Víkurfréttir ræddu við hana á Garðskaga þegar smiðshöggið var sett á verkefnið.

Draumur að sjá aftur ljóshús á vitanum

Sigurbjörg segir að það hafi lengi verið draumur félagsmanna í Vitafélaginu að sjá aftur ljóshús á Garðskagavita eftir að hann hafði staðið hér höfuðlaus í öll þessi ár. Gamli vitinn á Garðskaga er mjög merk bygging. Hann er næstelsti viti landsins og jafnframt næstelsta steinhús landsins, byggt árið 1897. Hann er jafnframt í hópi þeirra vita sem fyrstir voru friðlýstir árið 2003 að tilstuðlan Húsafriðunarnefndar og Íslenska vitafélagsins.

Byrjað var fyrir hálfu öðru ári síðan að afla fjár til framkvæmdarinnar og leita að gömlum teikningum af vitanum. Áður var þó byrjað að leita að ljóshúsi á vitann. „Það er hönnun eftir danska verkfræðinga og við gældum við það í byrjun að við myndum finna ljóshús í Danmörku en það tókst ekki. Við fundum hins vegar gamlar teikningar af ljóshúsinu og létum smíða það,“ segir Sigurbjörg.

Eftir að nýr viti var reistur á Garðskaga og tekinn í notkun lýðveldisárið 1944 var slökkt á ljósinu í þeim gamla. Það var svo árið 1948 sem ljóshúsið var tekið úr gamla vitanum á Garðskaga og flutt vestur að Breiðafirði. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta mun það í dag vera við höfnina í Stykkishólmi.
Sigurbjörg segir að Vitafélagið eigi mögum að þakka að nú sé komið ljóshús í gamla vitann. Menningarráð Suðurnesja hafi styrkt verkefnið, Stálorka smíðaði ljóshúsið, Málning hf. gaf málningu á það, Vegagerðin flutti húsið á milli staða á framkvæmdatímanum og svo tók þyrlusveit Landhelgisgæslunnar að sér að koma ljóshúsinu í Vitann með þyrlunni TF-LÍF. „Án allra þessara aðila hefði okkur ekki tekist að gera þetta að veruleika,“ segir Sigurbjörg.

Vekja fólk til vitundar um menningararf

„Okkar hugsun er að vekja fólk til vitundar um þann menningararf sem við eigum,“ segir Sigurbjörg þegar hún er spurð út í framhaldið og hverjar hugmyndirnar séu með nýtingu á gamla vitanum á Garðskaga. Hún segir að Vitafélagið eigi ekki eða reki strandminjar. „Þó viti sé hættur að gegna sínu upprunalega hlutverki, þá getur hann gegnt mörgum öðrum hlutverkum,“ segir Sigurbjörg og vísar til þess að vitar séu meðal annars aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Vitafélagið vinnur í dag að heimildamynd um íslenska vita sem Sigurbjörg segir að sé mjög merkileg. Fyrsti íslenski vitinn var ekki reistur fyrr en árið 1878 á Reykjanesi, vitinn á Garðskaga árið 1897 og iðn- og tæknibyltingin á Íslandi byrjaði ekki fyrr en með tilkomu fyrstu vitanna. Enginn sigldi til Íslands nema þegar það voru bjartar sumarnætur.



Hópur fólks sem kom að því að koma ljóshúsinu í vitann. Þarna eru félagar í Björgunarsveitinni Ægi, áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, félagar í Vitafélaginu og bæjarstjórinn í Garði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ljóshús á gamla vitann á Garðskaga - myndir