Gamli vatnstankurinn fær andlitslyftingu
-alþjóðleg samtök listamanna vilja skreyta tankinn með þemanu „Uppspretta“
Unnið er að því að gamli vatnstankurinn á Vatnsholtinu í Keflavík fái andlitslyftingu. Heimamenn í samtökum Toyista langar að myndskreyta tankinn með leyfi og stuðningi Reykjanesbæjar.
Vatnstankurinn sem er ekkert augnayndi í dag fengi andlitslyftingu sem myndi sóma svæðinu vel og hugsanlega laða ferðamenn inn í bæinn. Hugmyndin er að skreyta tankinn með þemanu UPPSPRETTA, þ.e.a.s. vatni, lífgjafa og uppsprettu vatnsorku og fleiru sem því viðkemur þar sem það er upprunalega hlutverk tanksins.
Toyistasamtökin eru alþjóðlegur hópur listamanna sem ganga með grímur undir nafnleynd á meðan á sýningum og ljósmyndun á vinnustundum stendur. Þannig er ekki gerður mannamunur og listin skiptir meira máli en listamaðurinn sjálfur.
„Á undanförnum árum hefur hópurinn tekið að sér tvö stærri verkefni og endurbætt niðurnítt mannvirki, veitt heilu hóteli andlitslyftingu auk annarrar sköpunar- og listverkefna. Þar er hægt að nefna Doppuna (The Dot) sem var áður gastankur og bar listsköpunin þess merki þar sem þemað var græn orka. Einnig má nefna annað verkefni sem enn er í gangi og er það Hotel Ten Cate í Emmen Hollandi, þar sem þemað er Draumar í morgunmat (Dreams for Breakfast). Þegar er búið að mála það að utan og sjö herbergi að auki, en nú bíður hópsins það verkefni að mála 6 herbergi til viðbótar, eða alls 13 herbergi en 13 er happatala Toyismans. Það er ástæðan fyrir því að við viljum að íslenska verkefnið eigi sér stað árið 2013,“ segir einn af þremur íslenskum fulltrúum hópsins hér á landi, ung kona hér á Suðurnesjum.
Listamenn alls staðar að koma að verkinu en geta þó aldrei orðið fleiri en 26 þar sem hið almenna stafróf inniheldur ekki fleiri stafi en svo. Hver listamaður á sinn staf sem hann býr til dulnefni úr. Innan samtakanna eru listamenn m.a. frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Kanada, Rúmeníu, Malasíu, Mexíkó, Hollandi og Íslandi.
Hugmyndin er að gera vatnstankinn í Reykjanesbæ að höfuðstöðvum Toyista á Íslandi en það yrði þá fyrsta alþjóðlega kennileiti Toyismans utan Hollands, sem er upprunalandið.
Að sögn Toyismans hefur hópurinn leyfi og stuðning Reykjanesbæjar fyrir þessari framkvæmd, með því skilyrði að honum takist að fjármagna þetta með styrkjum, til að standa undir kostnaði sem er á fimmtu milljón króna. „Hópurinn hefur þegar fengið samþykki fyrir menningarstyrk frá Menningarráði Suðurnesja fyrir þriðjungi þeirrar upphæðar, einnig hafa komið nokkrir smærri styrkir en þó vantar nokkuð upp á og því leitum við til ykkar með von um góðar viðtökur, þar sem þetta er samfélagslegt verkefni sem ætlað er að auðga andann og eins og fyrr er getið lífga upp á bæinn á fleiri en einn máta.
„Ég vona að bæjarbúar taki vel í þetta verkefni og hjálpi mér að ná settu marki. Ég er með síðu á facebook þar sem þið getið fylgst með verkefninu og er hægt að finna það á þessari vefslóð www.facebook.com/uppspretta13 þar er hægt að nálgast mig og ég get gefið upplýsingar um hvernig má styrkja okkur um eitthvað smáræði,“ sagði Toyistinn.