Gamla flugstöðin á Keflavíkurflugvelli
Það er ljómi í hugum fólks þegar það hugsar til gömlu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Í gegnum flugstöðina á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli fóru í Íslendingar eftir að þotuvæðingin átti sér stað í millilandafluginu hjá bæði Loftleiðum og Flugfélagi Íslands. Gamla flugstöðin iðaði af lífi en byggingin gegndi bæði hlutverki flugstöðvar og eins flugvallarhótels. Fjölmargir Suðurnesjamenn sóttu þangað vinnu og störfuðu við fjölbreytt störf í flugþjónustu þar til starfsemi flugstöðvarinnar var flutt í nýja byggingu, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, vestar á flugvallarsvæðinu. Nú er vinna að hefjast við að rífa gömlu flugstöðina sem hefur grotnað niður frá því Varnarliðið yfirgaf Keflavíkurflugvöll haustið 2006. Eftir að Íslendingar hættu að nýta gömlu flugstöðina var hún áfram nýtt fyrir starfsemi Varnarliðsins. Þangað kom farþegaflug á vegum hersins en einnig var ýmis þjónusta í húsinu á vegum Varnarliðsins. Þar var m.a. bókasafn, húsgagnaverslun NEX og skrifstofur ýmiskonar.
Friðþór Eydal var á sínum tíma upplýsingafulltrúi Varnarliðsins. Hann hefur síðustu ár starfað hjá ISAVIA og m.a. séð um málefni er tengjast afnotum bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. Friðþór hefur einnig komið að útgáfu bóka og handritaskrifum er tengjast veru varnarliðsins hér á landi og þekkir vel söguna um flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Útsendarar Víkurfrétta hittu Friðþór í gömlu flugstöðinni sem brátt mun heyra sögunni til.
„Í upphafi verður að horfa til þess að Keflavíkurflugvöllur var gerður í stríðinu fyrir herumferðina sem var eina umferðin á þessum slóðum. Bandaríski herinn byrjar með millilandaflug í gegnum Keflavíkurflugvöll og fleiri millilendingarstaði. Flugvélar þess tíma þurftu meira og minna að millilenda á leiðinni yfir Atlantshafið til að taka eldsneyti. Þegar herinn fer eftir stríðið er völlurinn afhentur Íslendingum en þá fær Bandaríkjaher áfram leyfi til að nota völlinn sem millilendingarstað fyrir herflugvélar en taka jafnframt að sér að reka hann sem alþjóðaflugvöll því að á þessum tíma fór ört vaxandi flugumferð í almennu farþegaflugi. Í fyrstu voru þetta aðallega amerísk flugfélög en síðan einnig evrópsk. Þá þurfti flugstöð og drifið í að reisa þetta hús sem er gert á árunum 1947-9. Byggingin var tekin í notkunn vorið 1949 og þá ekki bara sem flugstöð, heldur einnig flugvallarhótel. Mjög fljótlega þurfti að reisa viðbótarhús hér við hliðina sem viðbót við hótelið. Það hús var rifið fyrir fáeinum árum,“ segir Friðþór þegar hann rifjar upp sögu flugstöðvarinnar.
Öll efri hæð flugstöðvarinnar var notuð sem hótel og þar var víðsýnt fyrir flughlaðið og út á flugbrautir.
Fyrstu fimmtán ár flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli var heilmikil flugumferð eða þar til þoturnar voru teknar í notkun í kringum 1960. Þegar fram liðu stundir þá þurftu þær ekki að hafa viðkomu og breytingar urðu. Á sama tíma voru breytingar að verða á íslenska millilandafluginu sem allt fór fram í Reykjavík. Flugfélögin tvö voru komnar með svo stórar flugvélar að erfitt var að athafna sig með þær í Reykjavík. Í Ameríkufluginu varð að fljúga vélunum frá Reykjavík og millilenda þeim í Keflavík til að taka eldsneyti og jafnvel farþega.
„Úr verður að árið 1962 taka Loftleiðir að sér rekstur flugstöðvarinnar og flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Tveimur árum síðar fengu Loftleiðir það stórar flugvélar að þær gátu alls ekki notað Reykjavíkurflugvöll lengur og þá flytur félagið alla millilandastarfsemi sína hingað suður á Keflavíkurflugvöll. Flugfélag Íslands fylgdi svo í kjölfarið þegar það tekur í notkun fyrstu þotuna árið 1967. Þá fer umferð um Keflavíkurflugvöll aftur að aukast og það er fyrst og fremst með íslensku farþegaflugi sem smátt og smátt vex fiskur um hrygg á næstu áratugum þar til stöðin er orðin alltof lítil en þá er farið í að reisa nýju flugstöðina“.
- Þegar það gerist þá koma Bandaríkjamenn með fullt af peningum og hjálpa okkur að byggja nýja flugstöð.
„Jú, auðvitað. Þeir vissu hvað til síns friðar heyrði í þessu efni og hjálpuðu upp á sakirnar því það hentaði þeim ágætlega. Það hentaði Bandaríkjamönnum að aðskilja borgaralega flugið frá sínum rekstri. Hér var allt í einum kraðaki, farþegaflugið, orrustuflugsveitir, allar kafbátaleitarflugvélarnar og ratsjárflugvélar“.
Farið var út í það á áttunda áratugnum að endurskipuleggja Keflavíkurflugvöll og færslan á flugstöðinni passaði vel inn í þá mynd að færa hana vestar á flugvallarsvæðinu.
Íslendingar tóku við flugvellinum af Bandaríkjamönnum árið 1946 þó svo þeir hafi ekki tekið við rekstrinum að fullu fyrr en árið 2006 við brottför Varnarliðsins.
- Það er fyrst núna rúmum áratug eftir að Varnarliðið fer að það á að fara í að rífa þessa byggingu. Hvers vegna var það ekki gert fyrr?
„Vandinn við það húsnæði sem Varnarliðið skildi eftir hérna var að það er að mörgu leiti mjög óhentugt, ýmist of stórt eða of lítið. Gott dæmi er stóra flugskýlið sem einnig stendur til að rífa. Það hefur ekki verið aðkallandi að rífa þessar byggingar. Núna er hins vegar komið nýtt skipulag fyrir þetta svæði og ekki ástæða til að bíða lengur með að rífa húsin ef einhver hefur þörf fyrir lóðina til að reisa húsnæði sem hentar þeirri starfsemi sem mun fara þar fram“.
Lóðinni undir gömlu flugstöðinni hefur ekki verið úthlutað en þar er á nýju skipulagi gert ráð fyrir flugskýli eða öðru húsnæði sem hentar starfsemi á þessum stað.
Auk þess að rífa gömlu flugstöðina þá stendur til að rífa flugskýli 885 á Keflavíkurflugvelli. Þegar er byrjað að rífa innan úr því húsi. Stóra flugskýlið er óhentug og dýr bygging til endurnýtingar og mun því víkja fyrir hentugri mannvirkjum á svæðinu.