Gamall olíubíll OSK kominn á byggðasafnið
Gamall Bedford olíubíll frá OSK, Olíusamlagi Keflavíkur og nágrennis, hefur verið afhentur Byggðasafni Reykjanesbæjar til varðveislu. Það var gert við hátíðlega athöfn á Ljósanótt þegar Byggðasafn Reykjanesbæjar opnaði formlega nýjar safngeymslur sínar í Rammahúsinu á Fitjum.
Tómasi Knútssyni áskotnaðist bíllinn frá N1 en Olíufélagið hf. eignaðist bílinn þegar Olíusamlag Keflavíkur og nágrennis rann inn í Olíufélagið.
Bedfordinn er árgerð 1973 og þjónaði bíllinn Suðurnesjum með því að afgreiða olíu í heimahús, á báta og bíla. Bíllinn var notaður til ársins 2006 eða í 33 ár.
Það kom í hlut Ólafs Björnssonar og Guðjóns Ólafssonar að afhenda byggðasafninu bílinn eftir að Tómas hafði formlega afhent þeim Ólafi og Guðjóni gjafabréf fyrir bílnum.
Nú kemur það í hlut safnsins að varðveita bílinn og síðan mun framtíðin leiða það í ljós hvort bíllinn verði gerður upp en talsvert af varahlutum fylgir bílnum og hann er í gangfæru ástandi.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við afhendingu bílsins á dögunum. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson