Gamall kunningi sést aftur
Á góðviðrisdögum hér í eina tíð mátti oft sjá þykkan svartan reyk stíga til himins frá Keflavíkurflugvelli. Um nokkurt skeið hafa reykjarbólstrarnir ekki sést, en nú er að verða breyting þar á og íbúar Reykjanesbæjar geta átt von á því að sjá þykkan mökkinn stíga upp frá Keflavíkurflugvelli þegar réttar veðurfarslegar aðstæður eru fyrir hendi.
Reykurinn kemur frá æfingasvæði Slökkviliðs Keflavíkurflugvallar. Slökkviliðið hefur nú fengið leyfi að nýju til að nota sérstakan æfingapytt innan flugvallarsvæðisins þar sem eldsneyti er brennt. Það er nefnilega nauðsynlegt fyrir slökkviliðsmenn að æfa sig í að slökkva í miklu raunverulegu eldhafi.
Í dag voru aðstæður þannig að slökkviliðsmenn gátu kveikt elda á Keflavíkurflugvelli en slökkt þá jafnharðan aftur. Meðfylgjandi mynd var tekin neðan við gamla Grænáshliðið, sem nú heitir Silfurhlið. Kolsvart ský er yfir Keflavíkurflugvelli eftir að slökkviliðsmenn hafa slökkt í bálinu í pyttinum góða.
Auk þess að geta æft sig í pyttinum hafa slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli einnig til afnota líkan af flugvél þar sem reglulega eru kveiktir eldar.
Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson