Gagnrýna umhirðu á grassvæðum
Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar gagnrýna umhirðu á grassvæðum og gróðri almennt í bæjarfélaginu. Eyjólfur Gíslason, varabæjarfulltrúi, lagði fram bókun um málið á bæjarstjórnarfundi 21. júní.
„Umhirða á grassvæðum og gróðri almennt hér í Reykjanesbæ, hefur ekki verið í lagi undanfarið.
Það virðist alveg undir hælinn lagt hvort og hvenær svæði eru slegin og ef þau eru slegin, þá hefur það gerst – að gras er ekki hirt og látið liggja í görðum jafnvel í einhverja daga áður en það er hirt. Einnig hafa orðið skemmdir bæði á grasflötum og eignum við sláttinn. Það verklag sem viðhaft hefur verið er með öllu ólíðandi! Við Sjálfstæðisfólk viljum að farið verði í endurskipulagningu á því hvernig slætti og umhirðu grassvæða verður. Þetta er stór hluti af ásýnd bæjarins að hafa snyrtilegar og vel hirtar grasflatir sem og önnur gróðursvæði, götur og gangstíga sem umhirðu hefur einnig verið ábótavant á.
Sjálfstæðisfólk óskar eftir því að bæjarstjóri, sem æðsti stjórnandi bæjarins, taki málið föstum tökum og vinni þetta mál í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið. Án tafar.“