Gagnrýna störf nýs hafnarstjóra í bókun
Fulltrúi H-lista í bæjarráði Suðurnesjabæjar greiddi atkvæði gegn viðauka við fjárhagsáætlun þar sem óskað var eftir einu stöðugildi til viðbótar við Sandgerðishöfn og að fjármagna það með auknum tekjum uppá 8,5 milljónir króna. „Svo virðist sem nýráðinn hafnarstjóri eigi ekki að ganga vaktir og leysa úr þeim álagstoppum sem upp koma. Hafnarstjóri hefur verið starfandi í á þriðja mánuð og er ekki enn farinn að vinna að daglegum störfum innan hafnarinnar,“ segir í bókun Magnúsar Sigfúsar Magnússonar, fulltrúa H-listans í bæjarráði. Magnús segir að starfsemina sé hægt að leysa með þremur stöðugildum og greiddi því atkvæði á móti því að auka stöðugildi í fjögur við Sandgerðishöfn.
Bókun H-listans er eftirfarandi:
„Sandgerðishöfn er með áætlaðar tekjur í fjárhagsáætlun fyrir rekstrarárið 2019 þar sem markaðssetning núverandi stjórnar um auknar tekjur koma fram. Þeim tekjum hefur þegar verið fundinn staður í rekstrinum fyrir árið 2019. Nú er verið að óska eftir einu stöðugildi til viðbótar við Sandgerðishöfn og að fjármagna það líka með auknum tekjum uppá 8,5 milljónir en það kemur ekkert fram hvernig á að ná þessum auka tekjum nema aðeins að það sé forgangsmál að auka tekjur á árinu sem framundan er. Svo virðist sem nýráðinn hafnarstjóri eigi ekki að ganga vaktir og leysa úr þeim álagstoppum sem upp koma. Hafnarstjóri hefur verið starfandi í á þriðja mánuð og er ekki enn farinn að vinna að daglegum störfum innan hafnarinnar. Kannski er hans eina starf markaðssetning og að auka tekjur hafnarinnar. Það er mat H-listans að þessi áform geti ekki gengið upp fjárhagslega. Hafnarsjóður ræður einfaldlega ekki við að greiða fjögur stöðugildi. Þessa starfsemi er hægt að leysa með þremur stöðugildum og greiðir H-listinn því atkvæði á móti því að auka stöðugildi í fjögur við Sandgerðishöfn“.