Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gagnrýna harðlega ráðningu verkefnastjóra
Miðvikudagur 15. september 2010 kl. 12:02

Gagnrýna harðlega ráðningu verkefnastjóra



N – listinn í Garði furðar sig á því að ráðið hafi verið í verkefnavinnu við Gerðaskóla án þess að fram hafi komið hvert verksvið þess sem ráðinn var í verkið ætti að vera, hver væru tímamörk verksins og heildarkostnaður. N-listinn lagði fram bókun þessa efnis á síðasta bæjarráðsfundi í Garði og kallaði eftir svörum við því af hverju verkið var ekki auglýst og hvaðan ætti að taka fé fyrir þeim kostnaði sem því fylgir. Einnig bað N-listinn um þau faglegu rök sem lágu að baki því að ákveðinn einstaklingur var valinn í verkefnið án auglýsingar, eins og segir í bókuninni.

Á síðasta bæjarstjórnarfundi í Garði lagði D-listinn fram svör vegna bókunar N-lista. Í svarinu er vísað til bókunar skólanefndar Gerðaskóla frá 12. ágúst. Þar komi fram að haft hafi verið samband við Guðbrand Stíg Ágústsson, verkefnastjóra íslensku  Menntaverðlauna Forseta Íslands, um að aðstoða við gerð nýrrar skólastefnu fyrir Gerðaskóla og fleiri þáttum sem snúa að skólastarfinu.

„Tekið er heilshugar undir bókun skólanefndar með ráðningu verkefnastjóra til að undirbúa nýja skólastefnu og vinna að innri málefnum skólans. Jafnframt að koma á framfæri við starfsfólk og íbúa í Garði að hér sé rekinn grunnskóli af myndarskap sem byggir á traustum grunni. Aðkoma verkefnastjórans verður vonandi til þess að jákvæðara viðhorf  skapist í garð skólans. Fulltrúar D-lista hafa sett sér það markmið að í samstarfi við skólanefnd, skólastjóra og starfsmenn skólans komist Gerðaskóli í fremstu röð grunnskóla á Íslandi á næstu árum. Góðir skólar eru  lykillinn að  fjölgun íbúa í sveitarfélaginu,“ segir í svörum D-listans.

Þar kemur fram að kostnaður vegna ráðningu verkefnastjórans til áramóta verði 1.1 milljón króna sem vísað verði til endurskoðunar á liðnum handbært fé.
Staða verkefnastjórans sé tímabundin ráðning samkvæmt verktakagreiðslu og  því sé ekki skylt að auglýsa slíka ráðningu.

Fulltrúar N-listans eru allt annað en sáttir við vinnubrögð D-listans og saka hann um að halda upplýsingum frá bæjarfulltrúm. Svör hafi verið send í tölvupósti sjö klukkustundum fyrir fundinn en samkvæmt bæjarmálasamþykkt skuli þau hafa borist í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir fund.

„N – listinn furðar sig á því að búið sé að ráða í verkefnavinnu við Gerðaskóla án þess að fram hafi komið hvert verksvið þess sem ráðinn var í verkið ætti að vera, hver væru tímamörk verksins og heildarkostnaður. N-listinn vill fá svör við því af hverju verkið var ekki auglýst og hvar sé gert ráð fyrir þeim kostnaði sem því fylgir á árinu 2010. Einnig biður N-listinn um þau faglegu rök sem fyrir því liggja að þessi ákveðni einstaklingur var valinn í verkefnið án auglýsingar. Óskað er eftir að svör við þessum athugasemdum komi fram á næsta bæjarstjórnarfundi og fylgi fundargögnum.
Samkvæmt 12. gr. bæjarmálasamþykktar segir: Bæjarstjóri skal hafa sent bæjarfulltrúum fundarboð bæjarstjórnarfundar ásamt dagskrá og fylgigögnum þannig að þau gögn berist þeim í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir bæjarstjórnarfund. Bæjarfulltrúi óskaði eftir að upplýsingarnar væru í fundargögnum. Meirihlutinn verður ekki við óskum bæjarfulltrúans. Það er alvarlegt að upplýsingum sé haldið frá bæjarfulltrúum og krefjast fulltrúar N - listans þess að málið verði sett á dagskrá næsta bæjarráðsfundar og að umbeðin gögn berist sem fyrst. Ekki er ásættanlegt að fá viðbrögð send í tölvupósti sjö klukkustundum fyrir bæjarstjórnarfund þar sem sagt er að um tímabundna ráðningu er að ræða og því ekki skylt að auglýsa það starf í Gerðaskóla. Kostnaður við starfið sé 1.100.000.- kr til áramóta og að D listinn muni svara þessari fyrirspurn með bókun,“ segir orðrétt í bókun N-listans.

Ráðing verkefnastjórans var samþykkt með atkvæðum D-lista en fulltrúar N-listans sátu hjá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024