Gagnrýna ákvörðun um skerðingu kvóta
Félag smábátaeigenda á Reykjanesi hefur harðlega gagnrýnt skerðingu á veiðiheimildum til strandveiða en með reglugerð sem gefin var út í vor var afli á svæði D, sem nær frá Höfn að Faxaflóa, skertur um 200 tonn, úr 1.500 tonnum í 1.300 tonn. Heildarkvóti strandveiða var aukinn um 400 tonn í vor.
Píratar sendu í gær frá sér tilkynningu þar sem þeir gagnrýna þessa ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Í tilkynningunni kemur fram að Píratar á landinu öllu lýsi yfir stuðningi við strandveiðisjómenn og harmi skerðinguna. „Jafnræðis við úthlutun kvóta til strandveiðisvæða er ekki gætt þegar úr honum er dregið á einum stað og hann aukinn annars staðar. Við hjá Pírötum viljum jafnframt undirstrika að atvinnufrelsi eru stjórnarskrárbundin réttindi og því styðjum við frjálsar handfæraveiðar,“ segir í tilkynningunni.
Þá hefur Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, gagnrýnt skerðinguna. Haft er eftir honum á vef RÚV að afar óréttlátt hafi verið að skerða kvóta strandveiðimanna á svæði D og að með því sé smábátasjómönnum mismunað. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegsráðherra, segir í viðtali við RÚV að aflaheimildir hafi verið færðar af svæði D yfir á önnur því að undanfarin tvö ár hafi 100 til 200 tonn ekki verið nýtt á svæði D.