Gagnaver á Keflavíkurflugvelli: 20 milljarða fjárfesting
Samningar um uppbyggingu og rekstur alþjóðlegs gagnavers á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli voru undirritaðir í dag. Reiknað er með að hluti starfseminnar hefjist síðar á þessu ári en eftir fjögur ár verði gagnaverið komið í fullan rekstur.
Að uppbyggingu fyrirtækisins standa Verne Holdings, sem er í eigu Novators, félags Björgólfs Thors Björgólfssonar, og bandarískt fjárfestingafélag að nafni General Catalyst. Forsvarsmenn þessara fyrirtækja segja að á annað hundrað ný störf verði til á Suðurnesjum með tilkomu gagnaversins.
Fram kom á blaðamannafundi í dag, að áætluð heildarfjárfesting Verne í verkefninu verði um 20 milljarðar króna á fimm árum. Bein og óbein efnahagsleg áhrif innanlands nemi um 40 milljörðum króna. Ætla megi, að á næstu fjórum árum verði yfir 100 störf til vegna gagnaversins.
Verne kaupir tvö stálgrindarhús, 10.000 og 13.000 fermetra, af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, ásamt smærri eignum. Þá eru stækkunarmöguleikar á lóð til byggingar tveggja húsa til viðbótar.
„Þetta er fyrsta skrefið í uppbyggingu netþjónabúa á Íslandi og við erum stolt af því að hér hafi verið til staðar kjöraðstæður við brotthvarf Varnarliðsins. Búið er að tryggja orku af landsnetinu en HS hefur einnig lýst sig reiðubúið til að útvega orku ef þarf,“ sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og stjórnarformaður HS í samtali við VF.
Árni segir að í gagnaverinu sjálfu megi ætla að til að byrja með starfi þar um 15-20 manns en þegar fram í sæki verði margfeldisáhrifin mjög jákvæð.
„Reynslan frá Evrópu og Bandaríkjunum er sú að tæknifyrirtæki og fyrirtæki sem nýta sér þjónustu slíkra búa tengja sig með eigin starfsmönnum inn á svæðið.
Hér er um að ræða margvísleg tæknistörf sem þýða að unga fólkið okkar getur farið að undirbúa sig með námi sem hentar til vellaunaðra starfa.
Þar kemur skólafélagið Keilir inn á réttum tíma og þegar eru hafnar viðræður við forsvarsmenn Verne fyrirtækisins um möguleika á réttri menntun og þjálfun fyrir netþjónabúið sem yrði í boði hér í Reykjanesbæ,“ sagði Árni Sigfússon.