Gáfu bókasafn Hilmars Jónssonar
Bókasafni Reykjanesbæjar barst í gær höfðingleg gjöf. Elísabet Jensdóttir, ekkja Hilmars Jónssonar fv. bókavarðar, afhenti þá safninu bókasafn Hilmars heitins. Safnið var viðamikið og fyllti tæplega 100 kassa.
Í safni Hilmars voru fræðibækur ýmiskonar, heildarsafn Halldórs Laxness, og bækur eftir fjölmörg önnur skáld og fræðimenn. Þá voru einnig listaverkabækur, svo eitthvað sé nefnt.
Það var vilji Hilmars Jónssonar að Bókasafn Reykjanesbæjar fengi safn hans að honum gengnum. Hilmar var bókavörður í Keflavík í áratugi og byggði upp mikið og gott bókasafn.
Það var Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sem veitti safninu móttöku og þakkaði þessa höfðinglegu gjöf til bæjarbókasafnsins sem nýlega hefur hreiðrað um sig í Ráðhúsi Reykjanesbæjar við Tjarnargötu í Keflavík.