Gaf byggðasafninu fyrsta hljóðnemann á Vellinum
Sigurður Jónsson, betur þekktur sem Siggi TV, hefur gefið Byggðasafni Reykjanesbæjar fyrsta hljóðnemann sem notaður var í útvarpi á Vellinum.
Hljóðneminn er merktur landher Bandaríkjanna sem fyrstur kom árið 1951 en þá var útvarpið til húsa þar sem seinna var rekinn barnaskóli.
Sigurður vann við ljósvakamiðla hersins í 45 ár. Á þeim tima hefur hann fylgst með og átt þátt í að þróa þessa miðla bæði hér á landi og erlendis.
Sigurður hefur gefið Byggðasafninu dýrmætar upplýsingar um störf sín sem veita innsýn í daglegt líf í herstöðinni. Sigurður er einn af um 30 viðmælendum sem starfsfólk Byggðasafnsins hefur rætt við í tenglsum við nýja sýningu sem opnar í Duushúsum þann 30. mars nk.
„Við höfum einnig lagt áherslu á að safna hlutum sem voru dæmigerðir og kannski „kanalegir" og erum við búin að skrá nokkur hundruð gripi. Við höfum fengið nokkur góð framlög frá einstaklingum. Ásbjörn Eggertsson, sem lengi starfaði í „Housing", gaf okkur t.d. skildi með merki stöðvarinnar, merkta krús og loftmynd af svæðinu. Johan D. Jónsson, sem starfaði hjá „ATOC" í gömlu flugstöðinni, færði okkur dagsskipun síðasta starfsdagsins og einnig viðhafanarfána sjóhersins,“ segir Helga Ingimundardóttir hjá Byggðasafni Suðurnesja í samtali við VF.
Starfsmenn Byggðasafnsins hafa upp á síðkastið farið um svæðið og náð þó nokkru af hversdagslegum hlutum sem nú eru óðum að hverfa. Töluvert vantar þó enn upp á og vill starfsfólk Byggðasafnsins hvetja fólk til að hafa samband ef það hefur í fórum sínum gripi sem það vildi gefa eða lána og tengjast þessari sögu. Einnig eru allar ljósmyndir mikilvægar í þessu sambandi.
--
Mynd: Sigurður Jónsson með fyrsta hljóðnemann sem notaður var á Vellinum.