Gæti unnið Norrænu lýsingarverðlaunin
Mikill heiður, segir framkvæmdastjóri Hljómahallar.
„Það er mikill heiður fyrir Rokksafn Íslands að vera tilnefnt til Íslensku lýsingarverðlaunanna. Lýsingin er svo ótrúlega stór ástæða fyrir því að safnið lítur jafn vel út og það í raun gerir. Tilnefningin þýðir að safnið á möguleika á að vinna verðlaunin en það myndi þýða að safnið yrði tilnefnt fyrir Íslands hönd á Norrænu lýsingarverðlaununum sem Bláa Lónið hlaut einmitt árið 2006,“ segir Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar, í samtali við Víkurfréttir.
Tómas bætir við að ekki sé heldur leiðinlegt að segja frá því að lýsingin var alfarið unnin af heimamönnum en Rósa Dögg Þorsteinsdóttir lýsingahönnuður, sem er Grindvíkingur, vann verkefnið náið með Guðmundi Ingólfssyni hjá Rafverkstæði IB og Óla Þór Magnússyni byggingastjóra Hljómahallar.
Íslensku lýsingarverðlaunin verða veitt í fyrsta sinn á Alþjóðaári ljóssins 2015 næstkomandi laugardag. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun afhenda verðlaunin.
Hér má sjá dagskrá hátíðarinnar.