Gæsluvarðhald og geðrannsókn
Kona sem var handtekin í gær fyrir að stinga fimm ára stúlku í brjóstið í heimahúsi í Keflavík hefur viðurkennt verknaðinn í yfirheyrslu hjá lögreglunni. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist gæsluvarðhalds yfir konunni fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag og var hún úrskurðuð í viku gæsluvarðhald. Jafnfram var úrskurðað að kröfu lögreglustjóra að hún skyldi sæta geðrannsókn.
Lögreglan á Suðurnesjum var kölluð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja kl. 12:01 í gærdag eftir að 5 ára gömul telpa hafði verið flutt þangað til aðhlynningar vegna hnífstungu í brjóstið.
Tildrög hnífstungunnar munu hafa verið þau að telpan fór til dyra á heimili sínu þegar bankað var á útihurðina. Þegar hún opnaði dyrnar mun hafa verið lagt til hennar með hnífi þannig að hún hlaut eitt stungusár á brjóst. Foreldrar telpunnar voru heima og fluttu hana þegar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Fljótlega beindist grunur að 22 ára gamalli konu og var hún handtekin á heimili sínu skömmu síðar og gekkst hún við verknaðinum við yfirheyrslur hjá lögreglu í gær.
Hnífur sem talið er að konan hafi notað við verknaðinn fannst í sorptunnu við heimili hennar.
Eftir læknisaðgerð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja var telpan flutt á Landspítalann í Reykjavík til eftirlits og mun henni heilsast vel eftir atvikum.