Gæslan: Fyrirheit um flutning blásin af
Hugmyndir um flutning Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur hafa verið blásnar af samkvæmt skýrslu um tillögur að framtíðarskipulagi þyrlubjörgunarþjónustu á Íslandi.
Er þetta andstöðu við þau orð sem Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, létu hafa eftir sér í vor.Björn hefur kynnt skýrsluna fyrir ríkisstjórn og í henni er mælt með að allar þyrlur Landhelgisgæslunnar verði staðsettar í Reykjavík.
Umræðan um flutning á starfsemi Gæslunnar, að hluta eða í heild, komst í hámæli í vor þegar ljóst var að Varnarliðið ætlaði að hætta umsvifum á Keflavíkurflugvelli og hverfa af landi brott. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga var haft eftir Birni Bjarnasyni í fjölmiðlum að hann og Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, væru sammála um að flugstarfsemi Gæslunnar ætti að flytjast til Keflavíkur.
Halldór Ásgrímsson sagði um sama leyti á borgarafundi í Stapa að það lægi í augum uppi að starfsemi Landhelgisgæslunnar yrði að flytjast til Keflavíkur, að minnsta kosti að hluta., þar sem núverandi aðstaða Gæslunnar væri ekki nógu góð.
Í áðurnefndri skýrslu er mælt er með að allar þyrlur Landhelgisgæslunnar verði staðsettar í Reykjavík. Hagkvæmnis- og öryggissjónarmið krefjist þess að sveitin hafi bækistöð á einum stað og að hún sé í tengslum við höfuðstöðvar Landhelgisgæslu Íslands, segir í skýrslunni.
Hugmyndir um flutning sveitarinnar til Keflavíkur virðast því hafa verið blásnar af.