Gæludýr mögulega leyfð í strætó
Reykjanesbær mun á næstunni skoða það hvort gæludýr verði leyfð í strætisvögnum bæjarins. Þetta segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar, í samtali við Víkurfréttir en Reykjanesbær mun kynna nýtt leiðarkerfi strætó bráðlega.
Á höfuðborgarsvæðinu, frá og með 1. mars næstkomandi, verða gæludýr leyfð í vögnum þar á svæðinu en um er að ræða tilraunaverkefni sem Umhverfis- og auðlindaráðuneyti Reykjavíkurborgar veitti til eins árs.
Sævar Baldursson, framkvæmdastjóri Bus4U sem sér um akstur strætisvagna í Reykjanesbæ, segir fyrirtækið ekki hafa tekið afstöðu til þess hvort gæludýr verði leyfð í vögnum hér á svæðinu en Reykjanesbær taki lokaákvörðun um það. Eins og staðan er nú séu gæludýr ekki leyfð um borð.