Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Gæfuríkt ár að baki í ferðaþjónustunni
  • Gæfuríkt ár að baki í ferðaþjónustunni
    Eggert Sólberg, forstöðumaður Reykjanes UNESCO Global Geopark.
Laugardagur 13. febrúar 2016 kl. 06:15

Gæfuríkt ár að baki í ferðaþjónustunni

- Nálægð við náttúruöflin vinsæl hjá pörum

Ferðaþjónustan á Suðurnesjum er að ganga í gegnum miklar breytingar, enda hefur ferðamönnum fjölgað og mikil uppbygging átt sér stað. Víkurfréttir litu yfir síðasta ár hjá ferðaþjónustunni með Þuríði Aradóttur Braun, forstöðumanni Markaðsstofu Reykjaness og Eggerti Sólberg forstöðumanni Reykjanes UNESCO Global Geopark. Eggert segir aðild að alþjóðlegum samtökum geoparka, eins og þá sem Reykjanes Geopark fékk á árinu, vera mikla viðurkenningu fyrir íbúa og atvinnurekendur á svæðinu. „Aðildin nýtist til markaðssetningar, fræðslu og uppbyggingar,“ segir hann. Auk þessa setti UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjanes Geopark á lista sinn. Svæðið er þá eitt af fjórum á Íslandi á listum stofnunarinnar. Ferðamenn og aðrir eiga því eftir taka eftir merki UNESCO á Reykjanesi á næstu árum.
 
Í tengslum við Reykjanes Geopark hefur verið unnið að verkefninu GEOfood. Hugmyndin er að þróa upprunamerkingar og markaðsefni fyrir veitingastaði og matgæðinga á svæðinu í samstarfi við norræna geoparka. Veitingastaðir og matvælaframleiðendur geta nýtt sér merkið og markaðsefnið uppfylli þeir ákveðin skilyrði um hráefni úr héraði.
 
Gestastofa vinsæl meðal nemenda
Reykjanes Geopark og Reykjanesbær opnuðu Gestastofu í Duushúsum í vor. Þar er að finna sýningu um myndun og mótun Reykjanesskagans ásamt upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn sem rekin er af Reykjanesbæ með styrk frá Markaðsstofu Reykjaness. Á síðasta ári var góð aðsókn í gestastofuna og upplýsingamiðstöðina. Skólahópar á ferð um Reykjanesið komu margir hverjir við í Gestastofunni og fræddust um Reykjanes Geopark. Þá kom fjöldi erlendra og íslenskra ferðamanna við í leit að upplýsingum um þjónustu á svæðinu. Margir erlendir ferðamenn koma einnig við og leita upplýsinga um áfangastaði á Reykjanesi eða til að undirbúa sig undir lengra ferðalag um Ísland.
 
Í síðustu viku var auglýst eftir áhugasömum aðilum til að byggja og reka þjónustumiðstöð við Reykjanesvita. Nú liggur fyrir deiliskipulag fyrir Brimketil annars vegar og Reykjanes og nágrenni hins vegar. Eggert segir standa til að stórbæta aðstöðu fyrir gesti á þessum stöðum, endurnýja bílastæði, útbúa göngustíga, útsýnispalla og merkingar. Árlega koma á milli 200.000 og 300.000 ferðamenn að Reykjanesvita og segir Eggert að búast megi við að þeir verði enn fleiri eftir endurbæturnar. 
 
Rómantíska Reykjanes
Lesendur USA Today kusu Reykjanesið einn besta óþekkta rómantíska stað í heimi og í framhaldi af því hefur Markaðsstofan kynnt svæðið sem slíkt á ferðasýningum erlendis. „Áfangastaðir á Reykjanesi og nálægð við náttúruöflin er eitthvað sem pörum þykir eftirsóknarvert að upplifa saman. Bláa lónið er mjög vinsæll áfangastaður en einnig hafa svæði eins og Brú á milli heimsálfa, Gunnuhver og svæðið við Valahnúk mikið aðdráttarafl,“ segir Þuríður.
 
Allt bendir til þess að ferðamenn dvelji lengur á Reykjanesi en áður og er svæðið sérstaklega vinsælt yfir vetrartímann. Að sögn Þuríðar er enn verið að vinna úr tölum um gistinætur en eigendur hótela og gistihúsa eru á einu máli um að fjölgun gesta á milli ára hafi verið nokkur. 
 
Á liðnu ári var nýr vefur um Reykjanesið tekinn í notkun, visitreykjanes.is, og er hann miðaður að áhugasviði gesta svæðisins. „Á nýja vefnum er sýnileiki aðila í ferðaþjónustu og samstarfsaðila markaðsstofu Reykjaness meiri en áður. Einnig eru góðar upplýsingar um afmarkaða hluta eins Reykjanesið sem ráðstefnu- og fundarsvæði. Þá eru einnig góðar upplýsingar um vita á svæðinu, ljósmyndun, afþreyingu fyrir fjölskylduna og svo framvegis,“ segir Þuríður.
 
Það er því ljóst að bjartir tímar eru framundan í ferðaþjónustunni og eru Eggert og Þuríður full eftirvæntingar að sjá hvernig málin þróast í ár.
 
 
Þuríður Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024