Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Gæðastimpill að komast á lista UNESCO
    Valahnjúkur og Reykjanesviti.
  • Gæðastimpill að komast á lista UNESCO
    Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri hjá Reykjanes Geopark.
Fimmtudagur 26. nóvember 2015 kl. 10:26

Gæðastimpill að komast á lista UNESCO

- Reykjanes Geopark á lista yfir 120 athyglisverðustu jarðvanga í heimi.

„Þetta er gæðastimpill fyrir þau verkefni sem hefur verið unnið að undanfarin ár og við erum afskaplega stolt,“ segir Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri hjá Reykjanes Geopark. Á dögunum samþykkti UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, að búa til þriðju stóru áætlun sína, það er áætlun um jarðvanga. Á Íslandi eru starfandi tveir slíkir, það er Reykjanes Geopark og Katla Geopark. „Við erum búin að fara í gegnum ítarlega skoðun til að komast á þennan lista enda eru kröfurnar miklar.“ Svæði eru á listanum í fjögur ár í senn og er þá gerð úttekt á þeim aftur og uppfylli þau skilyrðin eru þau þar áfram.
 
Til að komast á lista UNESCO þarf að vera eitthvað sérstakt á svæðinu sem ekki er að finna annars staðar í heiminum. „Hér á Reykjanesi kemur Atlantshafshryggurinn á land, með þeim afleiðingum að hér er jarðhiti, sprungur, jarðskjálftar og hreyfingar jarðfleka og eldsumbrot,“ segir Eggert. Þess má geta að aðeins tvö önnur íslensk svæði eru á listum hjá UNESCO, Þingvellir og Surtsey sem eru á heimsminjaskránni.
 
Geoparkar UNESCO búa yfir merkilegum jarðminjum á heimsvísu sem skýra frá mótun lands frá upphafi og áhrifum jarðfræðinnar á þróunarsögu, menningu og lífríki svæðanna. Svæðin hafa því mikið fræðslugildi vegna fjölbreytilegrar náttúru og sjaldgæfra jarðminja. „Við búum á einstöku svæði sem er núna komið á lista hjá UNESCO og eigum að vera stolt af því. Fyrirtæki, skólar og stofnanir á Suðurnesjum geta og ættu að nýta sér þessa viðurkenningu í markaðssókn sinni. Þá geta fyrirtækin vakið athygli á því að þau séu staðsett í Reykjanes UNESCO Global Geopark, til dæmis ferðaþjónustu- og framleiðslufyrirtæki. Svæðið fær meiri athygli eftir þessa viðurkenningu UNESCO og það getur orðið til þess að samsetning ferðamanna breytist og fólk dvelji lengur á svæðinu. Með Reykjanes Geopark hafa sveitarfélög, hagsmunaaðilar og ekki síst ferðaþjónstuaðilar byggt grunn að heildarskipulagi og stefnumótun fyrir ferðaþjónustu á svæðinu til framtíðar. Það er í raun einstakt að heill landshluti búi yfir því skipulagi.“ segir Eggert.
 
Á undanförnum árum hefur meðal gistináttafjöldi hvers ferðamanns á Reykjanesi lengst og er gert ráð fyrir að sú þróun haldi áfram. Þannig verði hægt að fjölga gistinóttum án þess endilega að fjölga ferðamönnum. „Þá er Reykjanesið orðið áfangastaður fyrir ferðamenn en ekki aðeins viðkomustaður.“
 
Reykjanes Geopark nær yfir land sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum, eða um 829 ferkílómetra. Ætlunin er að byggja upp áningarstaði fyrir ferðamenn á Reykjanesi og segir Eggert að megin áherslan í fyrstu sé á ferðamannaveg sem tengi saman sveitarfélögin á nyrðri hluta Reykjanesskagans og Grindavík. Á næsta ári er horft á svæðið í kringum Reykjanesvita og að færa bílastæði fjær klettanefinu og koma upp þjónustu.
 
Áætlað er að um 200.000 erlendir ferðamenn fari á svæðið í kringum Reykjanesvita ár hvert án þess að aðstaða sé þar til þess að taka á móti þeim fjölda. Eggert segir mikla þörf á að bæta aðstöðuna þar um leið og byggðir verða upp fleiri áningarstaðir.
 
Brimketill er sjávarlaug í fjöruborðinu á milli Grindavíkur og Reykjaness. Eggert segir brýnt öryggisatriði að koma upp aðstöðu fyrir ferðamenn þar enda sé hættulegt að vera þar við vissar aðstæður fari fólk ekki varlega. Eggert segir að uppbyggingu aðstöðu fyrir ferðamenn fylgi alltaf rask og eru það arkitektar sem fá það vandasama verkefni að skipuleggja svæðið. „ Þess vegna er einmitt gott fyrir okkur að vera í góðu sambandi við erlenda geoparka og hafa aðgang að þekkingu erlendra sérfræðinga og fá að fylgjast með því sem þeir hafa verið að gera.“ 
 
Hugmynd að útsýnispalli við Brimketil.
 
Hugmynd að göngustíg við Brimketil.
 
 
Brýnt er að bæta aðstöðu við Brimketil.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024