Fyrstu nýju bílarnir hjá HS Veitum eftir hrun
HS Veitur hafa keypt fimm nýja bíla af K. Steinarssyni í Reykjanesbæ. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að þetta eru fyrstu nýju bílarnir sem fyrirtækið kaupir eftir efnahagshrunið sem varð 2008.
Þá er það einnig merkilegt að þrír af nýju bílunum eru knúnir áfram af metani og munu vera fyrstu metanbílarnir sem keyptir eru til Suðurnesja. Nú munu aðeins vera fáar vikur þar til fyrsta metanstöðin opnar á Suðurnesjum, hjá Keili að Ásbrú.
Metanbílarnir þrír eru af gerðinni Volkswagen Caddy og koma fullbúnir til landsins frá verksmiðjum í Þýskalandi, en nokkuð hefur verið um það að bílum hefur verið breytt hér á landi og sett í þá metankerfi.
Auk metanbílanna þriggja, þá kaupa HS Veitur einnig tvo Volkswagen Transporter. Þeir eru dísleknúnir en Transporter mun koma með metankerfi á næsta ári.
Mynd: Frá afhendingu fyrsta metanbílsins á Suðurnesjum fyrir helgi. VF-mynd: Hilmar Bragi