Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fyrstu kaup Þórkötlu í Grindavík samþykkt
Ljósmynd: Golli
Föstudagur 12. apríl 2024 kl. 15:53

Fyrstu kaup Þórkötlu í Grindavík samþykkt

675 umsóknir liggja fyrir hjá Þórkötlu um kaup fasteigna

Fasteignafélagið Þórkatla gekk í dag frá fyrstu kaupsamningunum um kaup íbúðarhúsnæðis í Grindavík. Viðkomandi fasteignareigendur í bænum munu fá greitt út í næstu viku 95% af kaupverði eigna þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Gengið var frá kaupunum algerlega með rafrænum hætti í samvinnu við Ísland.is. Ferlið sem hefur verið í þróun að undanförnu hjá Ísland.is felur í sér rafrænan kaupsamning, rafrænar undirskriftir og í fyrsta skipti á Íslandi rafræna þinglýsingu kaupsamninga í fasteignaviðskiptum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eins og áður hefur komið fram er það markmið félagsins að klára afgreiðslu þorra þeirra umsókna sem þegar hafa borist í þessum mánuði. Það liggja nú fyrir 675 umsóknir hjá félaginu en hægt er að sækja um út þetta ár. Hluti umsóknanna mun þarfnast sérstakrar skoðunar og mun afgreiðsla þeirra taka aðeins lengri tíma.

„Við erum mjög ánægð með að vera komin á þennan stað að vera búin að hefja kaup fasteigna í Grindavík. Við munum senda fólki tilkynningu þegar ákvörðun um kaup á þeirra eign liggur fyrir og strax í kjölfar rafrænnar undirritunar fer samningurinn svo í rafræna þinglýsingu. Við greiðum út 95% kaupverðs nokkrum dögum síðar og restina við undirritun afsals,“ segir Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu fasteignafélags.