Fyrstu framkvæmdir hafnar í Helguvík
Undirbúningsframkvæmdir fyrir álver Norðuráls í Helguvík hófust í morgun þegar bæjarstjórarnir Oddný Harðardóttir úr sveitarfélaginu Garði og Árni Sigfússon úr Reykjanesbæ afhentu Ragnari Guðmundssyni, forstjóra Norðuráls byggingarleyfi fyrir álveri í Helguvík.
Í fyrstu verður lagður vegur að lóðinni, öryggisgirðing reist og sett upp verkefnisskrifstofa á staðnum. Áformað er að taka fyrstu skóflustungu að kerskála innan tíðar.
Líkt og álver Norðuráls á Grundartanga veður álverið í Helguvík byggt í áföngum þannig að fyrirtækið vaxi hóflegum skrefum fyrir íslenskt hagkerfi. Áætlað er að fyrsta áfanga framkvæmda verði lokið árið 2010 og að framleiðslugeta álversins verði þá um 150.000 tonn á ári. Öðrum áfanga á að verða lokið árið 2015 og verður framleiðslugetan þá komin í 250.000 tonn.
Áformað er að hefja álframleiðslu í Helguvík síðla árs 2010.