Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fyrstu farþegarnir með hraðlest árið 2025
Gert er ráð fyrir því að meðalhraði lestanna verði um 180 km/klst.
Fimmtudagur 23. mars 2017 kl. 09:09

Fyrstu farþegarnir með hraðlest árið 2025

Lægri slysatíðni með hraðlest til Reykjavíkur

Erlendir fjárfestar munu fjármagna fyrirhugaða hraðlest á milli miðborgar Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, að sögn Runólfs Ágústssonar, framkvæmdastjóra Fluglestarinnar þróunarfélags ehf., sem kynnti verkefnið á opnum fundi Viðreisnar sem haldinn var 21. mars síðastliðinn. Áætlað er að heildarkostnaður erlendu fjárfestanna nemi um 780 milljónum evra, eða um 93 milljörðum króna. Að sögn Runólfs hefur félagið ekki farið fram á fjárframlög frá hinu opinbera og stendur það ekki til. Viðræður við ýmsa erlenda sjóði og banka varðandi fjármögnun hafa verið jákvæðar. Unnið hefur verið að verkefninu í tæp fjögur ár og gert er ráð fyrir því að fyrstu farþegarnir gætu farið með lestinni árið 2025. Markmiðið er að erlendir ferðamenn komist sem hraðast frá flugvellinum og er áætlað að ferðin þaðan og til miðborgar Reykjavíkur muni taka um 18 mínútur. Einn stærsti hluthafi verkefnisins er danska stórfyrirtækið Per Aarsleff, verktakafyrirtæki sem byggt hefur lestir víða í Danmörku og annars staðar.

Jákvæð áhrif lestarinnar yrðu fjölmörg, að mati Runólfs. Lægri slysatíðni og tímasparnaður fólks þegar það ferðast á milli staða. Fluglestin myndi einnig minnka losun koltvísýrings um 19% miðað við forsendur um takmarkaða fjölgun ferðamanna og umferðarspá svæðisskipulags. Þá myndi draga úr umferðarþunga bæði á Reykjanesbrautinni sjálfri og einnig á leiðinni frá Hafnarfirði í miðbæ Reykjavíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gert er ráð fyrir að meðalhraði lestarinnar yrði 180 km á klukkustund, miðað við svipaðar lestir erlendis, svo sem Arlanda Express í Stokkhólmi og Heathrow í London. Þar borga farþegar jafnvirði fjögur til fimm þúsund króna fyrir ferðina og nota lestina að öllum líkindum bara í tvö skipti, til og frá flugvellinum. Gert er ráð fyrir því að fólk sem noti lestina til að ferðast til og frá vinnu muni greiða mun lægra fargjald, eða um þúsund krónur.

Eins og áður sagði er áætlað að heildarkostnaður erlendu fjárfestanna við verkefnið nemi um 93 milljörðum króna. Í áætlunum væri horft til þess að byrjað væri að borga af lánum á þriðja ári rekstrar en fram að þeim tíma yrðu aðeins borgaðir vextir. Lánið yrði síðan greitt niður á 30 árum.
Runólfur telur aðkomu ríkisins helst felast í því að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um lestarsamgöngur, en Ísland fékk undanþágu frá innleiðingu tilskipunarinnar á sínum tíma. Vinna við slíka lagasetningu er þegar hafin hjá innanríkisráðuneytinu.