Fyrsti veiðidagurinn í Bugtinni
„Þetta byrjar nú ekki með neinum rosakrafti, en þetta rjátlast,“ sagði Halldór Valdimarsson skipstjóri á Benna Sæm GK-26 í samtali við Víkurfréttir fyrir stundu. Í dag er fyrsti veiðidagur snurvoðabáta í Bugtinni á Faxaflóa en töluvert hefur fengist af sandkola á þessu veiðisvæði.
Halldór segir að upphaf vertíðarinnar nú sé lélegri en í fyrra. „Veðrið hefur nú líka áhrif á veiðina því það er kaldadrulla og leiðindastrekkingur. Þetta hefði sjálfsagt byrjað betur hefði veðrið verið betra,“ sagði Halldór en hann var kominn með 5 til 6 tonn af sandkola þegar Víkurfréttir ræddu við hann.
Myndin: Systurskipin Benni Sæm og Siggi Bjarna. VF-ljósmynd/Hilmar Bragi.