Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fyrsti skóladagur í Háaleitisskóla á Vallarheiði
Mánudagur 25. ágúst 2008 kl. 13:12

Fyrsti skóladagur í Háaleitisskóla á Vallarheiði



Fyrsti skóladagur er í dag í Háaleitisskóla á Vallarheiði eins og í öðrum grunnskólum á Suðurnesjum. Háaleitisskóli er nýr grunnskóli í Reykjanesbæ. Hann var settur í fyrsta skipti sl. föstudag en 94 nemendur voru skráðir í skólann við skólasetningu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Háaleitisskóli er merkilegur skóli í Reykjanesbæ. Skólinn er ætlaður nemendum í 1. til 5. bekk grunnskóla. Nemendurnir eiga það flestir sameiginlegt að foreldrar þeirra stunda nám við Keili eða eru íbúar í stúdentaíbúðum á Vallarheiði. Háaleitisskóli er í vetur rekinn sem útibú frá Njarðvíkurskóla og undir stjórn skólastjórnenda Njarðvíkurskóla, sem jafnframt leggur skólanum til kennara. Þrír starfsmenn frá grunnskóla Hjallastefnunnar, sem rekinn var á Vallarheiði sl. vetur starfa við Háaleitisskóla.



Húsnæði Háaleitisskóla var áður barnaskóli fyrir börn Varnarliðsmanna. Húsnæðið er rúmgott en hefur þó þurft að laga að íslenskum þörfum. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur umsjón með húsnæðinu og hefur látið gera þær breytingar sem þurft hefur til að húsnæðið standist þær kröfur sem gerðar eru í dag til skólahúsnæðis. Skipt hefur verið um rafmagn og setja þurfti upp nýja veggi og fjarlægja aðra, svo eitthvað sé nefnt. Reykjanesbær leigir síðan skólahúsið af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar.

Auk grunnskólans mun á næstu dögum opna leikskólinn Háaleiti í einni álmu skólahússins. Nánar verður fjallað um nýja leikskólann þegar hann verður formlega tekinn í notkun á næstu dögum.






Myndir:

Börn á leið í Háaleitisskóla í morgun.

Frá skólasetningu í Háaleitisskóla sl. föstudag.

Háaleitisskóli er rekinn í þessari skólabyggingu á Vallarheiði.

Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson