Fyrsti áfangi Helguvíkurálvers í notkun eftir tvö ár
Fyrsti hluti álvers Norðuráls í Helguvík verður tekinn í notkun eftir tvö ár eða á seinni hluta ársins 2011. Þá er áætlað að starfsmenn verði 210 og verði síðan 540 þegar álverið verður fullbyggt en þá er gert ráð fyrir að allt að 1000 afleidd störf skapist til viðbótar úti í samfélaginu.
Við byggingu álversins munu allt að 1.500 manns starfa árið 2011 og við tengd verkefni skapast allt að 6.000 ársverk. Í heild er því áætlað að á Íslandi skapist um tíu þúsund ársverk við verkefnið og yfir tvö þúsund störf þegar framkvæmdir verða í hámarki. Áætlað er að opinber gjöld vegna starfsemi álversins í Helguvík nemi 4-5 milljarðum á ári til lengri tíma. Áformað er að byggja álverið í fjórum 90.000 tonna áföngum og að ársframleiðsla verði allt að 360.000 tonn í fyllingu tímans.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, og Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls undirrituðu í gær fjárfestingarsamning vegna álvers Norðuráls í Helguvík. Meginmarkmið með samningnum er að tryggja ákveðinn stöðugleika í laga- og rekstrarumhverfi álversins sem er forsenda þess að ljúka megi fjármögnun verkefnisins. Samningurinn er sambærilegur þeim samningum sem gilda fyrir álverin á Grundartanga og á Reyðarfirði.
Alþingi setti í vor lög sem heimiluðu iðnaðarráðherra að gera fjárfestingarsamning við Norðurál en eftirlitsstofnun EFTA, ESA, þurfti að staðfesta lögmæti samningsins. Stofnunin úrskurðaði 23. júlí sl. að fjárfestingarsamningurinn stæðist EES reglur. Meðal annars skoðaði stofnunin orkusölusamninga Norðuráls við Orkuveitu Reykjavíkur og HS orku og tekur sértaklega fram að arðsemi orkusamninga sé eðlileg og ekki um neinar niðurgreiðslur á orkuverði að ræða.
Stór fjárfesting
Í þjóðhagsspám Seðlabanka og fjármálaráðuneytis er reiknað með fjárfestingum í orkufrekum iðnaði á næstu árum en í þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir við álver Norðuráls í Helguvík, ásamt tengdum framkvæmdum, beri uppi drjúgan hluta fjárfestinga atvinnuveganna á árunum 2010 og 2011.
Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segir að við núverandi aðstæður skipti miklu að hér ríki samhugur um verkefnið. “Það var strax ljóst eftir atburðina í október að orðspor Íslands hafði beðið mikinn hnekki og að skjóta þyrfti nýjum stoðum undir traust á verkefninu. Stuðningur ríkisstjórnar og Alþingis, ásamt atfylgi aðila atvinnulífsins og orkufyrirtækjanna, er okkur því mikilvægt veganesti í samningum við erlenda aðila.”
Liður í stöðugleikasáttmála
Stöðugleikasáttmáli aðila á vinnumarkaði og stjórnvalda byggist m.a. á því að lögð verði áhersla á að Helguvíkurverkefnið gangi fram. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fagnar undirritun fjárfestingarsamningsins.
„Erlend fjárfesting í nýframkvæmdum hér á landi er mjög mikilvæg við núverandi aðstæður, hún skapar þúsundum atvinnu og hana þarf ekki að greiða til baka.”,Vilhjálmur segir að tilkoma álversins í Helguvík gegni veigamiklu hlutverki í að tryggja aukna verðmætasköpun, gjaldeyrisöflun, hagvöxt og þar með betri lífskjör á næstu árum. “Álverið í Helguvík er einfaldlega flaggskipið í fjárfestingum í íslensku atvinnulífi á næstu árum og þá á ég bæði við álverið sjálft og tengdar orkuframkvæmdir. Verkefnið er gríðarlega mikilvægt fyrir endurreisn atvinulífsins og því fagna ég því að þessum áfanga sé náð.”
Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, tekur í sama streng. Hann segir verkefnið í Helguvík koma á afar heppilegum tíma inn í hagkerfið sem liður í að vinna þjóðina upp úr efnahagslægðinni.
„Bygging álvers í Helguvík verður sannkölluð lyftistöng í atvinnumálum og efnahagslífi almennt. Þarna er verið að tala um að allt að 1.500 manns fái vinnu við byggingarframkvæmdirnar þegar mest er og þegar þúsundir manna ganga atvinnulausir, hljóta allir að sjá hversu mikilvægt verkefni þetta er. Samfélagið þarf nú sem aldrei fyrr á að halda öflugum fyrirtækjum sem skapa hér varanleg störf og ég treysti því að allir leggist á eitt um að greiða götu þessa verkefnis.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norðuráli.
Ljósmyndir: Oddgeir Karlsson