Fyrsta þota Icelandair í nýjum búningi komin til Keflavíkurflugvallar
Boeing 737 Max 8 þota Icelandair, TF-ICE, Jökulsárlón, lenti á Keflavíkurflugvelli nú á sjöunda tímanum í kvöld. Þotan er sú fyrsta sem er með nýjum merkingum Icelandair. Nýtt útlit flugvélaflotans mun frá og með deginum í dag taka að breytast mjög frá því sem fólk á nú að venjast.
Gyllti liturinn sem verið hefur ráðandi í öllu markaðsefni fyrirtækisins, ásamt bláum og hvítum frá árinu 2006, mun nú hverfa á braut og þess í stað verður meiri áhersla lögð á nokkuð fjölbreytta litaflóru sem sé sótt í íslenska náttúru, ekki síst fjölskrúðug norðurljósin. Gert er ráð fyrir að notast verði við sex mismunandi liti. Vélin sem kom í dag, Jökulsárlón, er t.a.m. með ljósbláa rönd á stéli. Þá er nafn Icelandair áberandi á búki vélarinnar.
Hilmar Bragi, ljósmyndari Víkurfrétta, myndaði vélina þegar hún kom inn til lendingar nú á sjöunda tímanum.