Fyrsta smáforritið sem kennir íslensku málhljóðin
Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur kynnir afrakstur tveggja ára vinnu
Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur opnaði formlega nýtt smáforrit fyrir snjallsíma og spjaldtölvur við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu sl. miðvikudag. Vigdís Finnbogadóttir kynnti íslenska forritið, Lærum og leikum með hljóðin og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra kynnti ensku útgáfuna, Kids Sound Lab. Bryndís hefur síðastliðin ár gefið út bækur og spil undir heitinu Lærum og leikum með hljóðin. „Mér fannst þetta eðlileg þróun í ljósi aukinna vinsælda snjallsíma og spjaldtalva. Vinnan hefur tekið tvö ár og er ég mjög ánægð með útkomuna,“ segir Bryndís. Lærum og leikum með hljóðin er fyrsta smáforritið af sínum toga hér á landi þar sem hljóðin eru kennd af talmeinafræðingi.
Í forritinu er börnum kennt að segja íslensku málhljóðin rétt á lifandi og skemmtilegan hátt og njóta þau aðstoðar Maju og Mána sem hafa spilað aðalhlutverk í öllum bókum Bryndísar. Börn læra hljóð íslensku bókstafanna og fingrastafrófið um leið og lestrarferlið er undirbúið. Aðferðin byggir á áratuga reynslu Bryndísar í starfi með íslenskum börnum en einnig styðst hún við erlendar rannsóknir í talmeinafræði.
Bryndís hefur notið aðstoðar dóttur sinnar Védísar Hervarar, sem ljær Maju rödd sína en einnig sér hún tónlistina sem heyrist í forritinu. Felix Bergsson er röddin á bak við Mána. Búi Kristjánsson og Halla Sólveig Þorgeirsdóttir teikna líflegar og skemmtilegar myndir sem höfða vel til barna á öllum aldri. „Ég hef verið að vinna með frábæru fólki í þessu verkefni og að auki fékk ég styrki frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Barnamenningarsjóði fyrir íslenska forritið og Nýsköpunarmiðstöð Íslands styrkti ensku útgáfuna.“
Enska útgáfan af forritinu er frábær leið fyrir börn af erlendum uppruna að byrja að læra íslensku, og í raun geta fullorðnir líka nýtt sér það til þess að læra hljóðin sem notuð eru í íslensku tungumáli. Einnig er hægt að snúa dæminu við og geta íslensk börn lært ensku hljóðin og þar með fengið góðan grunn í tungumálinu. Þó að smáforritin hafi ekki verið kynnt formlega fyrr en í gær hafa þau verið til sölu í Appstore í rúma viku. Lærum og leikum með hljóðin er nú þegar orðið vinsælasta íslenska forritið þessa vikuna og verður því spennandi að fylgjast með framvindu þessa frumlega nýsköpunarverkefnis.