Fyrsta LED-götuljósið í Reykjanesbæ
Sólargötuljós er ný tegund götulýsingar sem byggð er á LED-lýsingu. Fyrirtækið Ludviksson ehf. í Reykjanesbæ er umboðsaðili á Íslandi fyrir götuljós sem eru byggð á þessari tækin. Fyrsta LED-götuljósið var sett upp í Reykjanesbæ í morgun þegar starfsmenn frá HS Veitum settu upp ljósakúpul með „sólargötuljósi“ framan við Njarðvíkurbraut 12 í Innri Njarðvík.
Á næstu vikum verða fleiri sólargötuljós sett upp í Reykjanesbæ en með tilkomu þeirra mun lýsing breytast til muna og appelsínugula ljósmengunin, sem er orðin mjög mikil í dag, hverfa.
Með því að skipta út núverandi ljósaperum og setja LED-perur í staðinn má ná fram miklum sparnaði í raforkukaupum en LED-ljósin nota aðeins um 20% af þeirri orku sem venjuleg götulýsing notar. Þá er líftími LED-peranna miklu meiri en þekkist úr núverandi lýsingu. Miðað við ljósnotkun á Íslandi má ætla að LED-peran muni endast vel á annan áratug.
Á vefsíðunni www.ledljos.com er birt reiknilíkan þar sem m.a. kemur fram að Reykjanesbær geti sparað 21 milljón króna á ári með því að skipta götulýsingu yfir í LED-ljós. Þá segir að fjárfestingin borgi sig á 6-10 árum og munu skila sér margfalt árin þar á eftir.
Guðmundur R Lúðvíksson stendur á bakvið innflutninginn á sólargötuljósunum og segist vera búinn að skoða þessi mál í mörg ár. Mikil vakning er að verða í þessa átt um þessar mundir og t.a.m. eru fjölmargar borgir um allan heima að skipta alfarið yfir í þessi LED-ljós.
Til að sveitarfélögin á Suðurnesjum geti kynnt sér kosti LED-lýsingar sem best þá býður Ludviksson ehf. sveitarfélögum 20 ljósa pakka á sérstöku verði ef þau hafa áhuga á að gera prufu í sínu sveitarfélagi.
Guðmundur segir að auk sólargötulýsingar sé fyrirtæki hans einnig að bjóða lausnir í garðlýsingu og fyrir sumarbústaði. Þá sé einnig hægt að fá lausnir fyrir staka ljósastaura sem eru knúnir áfram með rafhlöðum sem endast í yfir fimm ár. Þeir sem vilja kynna sér sólargötuljós geta skoðað vefinn www.ledljos.com.