Fyrsta íbúðauppbyggingin á Ásbrú síðan Varnarliðið fór
Stefnt að því að framkvæmdir við 150 íbúðir hefjist innan tveggja ára. Verslun og þjónusta einnig efld. Íbúar verði orðnir fimmtán þúsund innan þrjátíu ára.
„Við erum að brjóta blað í sögu Ásbrúar með því að hefja uppbyggingu á ný. Hér er markmiðið að fjölga íbúðum og íbúum og efla verslun og þjónustu. Við vonumst til að framkvæmdir geti hafist innan tveggja ára. Þessi reitur sem við erum að auglýsa mun rúma að lámarki 150 íbúðir ásamt verslun og þjónustu og verði fullbyggður innan sex til átta ára,“ segir Samúel Torfi Pétursson, þróunarstjóri hjá Kadeco.
Kadeco leitar nú kauptilboða í byggingarrétt fyrir 150 íbúðir, alls um 13.500 fermetrar á svonefndum Suðurbrautarreit á Ásbrú. Verkefnið er hluti af nýrri Þróunaráætlun Kadeco, K64. Kaupandi mun vinna deiliskipulag fyrir svæðið, sem er 3,3 hektarar að flatarmáli, í samvinnu við Kadeco og Reykjanesbæ.
Gert sé ráð fyrir misháum byggingum, allt að fjögurra hæða, til að tryggja fjölbreytni og 150 íbúðum að lágmarki. Einnig sé gert ráð fyrir skjólgóðu nærumhverfi, innigörðum og góðum göngutengingum við nærliggjandi svæði. Bílastæði verði aðallega eða eingöngu á yfirborði og deilt á minni svæði, aðgreind með trjágróðri til að falla vel að umhverfinu.
Um er að ræða fyrstu uppbygginguna íbúða síðan bandaríski herinn yfirgaf landið árið 2006. Ríkið eignaðist allt húsnæði á Keflavíkurflugvelli, nú Ásbrú, þegar Varnarliðið fór af landi brott. Nú er nær allt húsnæði á svæðinu í eigu einkaaðila, fyrirtækja og leigufélaga. Íbúar á Ásbrú eru nú um 4-5 þúsund manns en gert er ráð fyrir að íbúar á Ásbrú verði orðnir 15 þúsund innan þrjátíu ára.
„Næsta skrefið er að hefja deiliskipulagsvinnu á þessu svæði fyrir þessar 150 íbúðir eða meira. Samstarfsaðilinn mun fá byggingarétt á þessu svæði. Hann gerir lóðaleigusamninga, hannar og byggir íbúðarhúsnði, tvær til fjórar hæðir. Auk byggingu íbúða viljum sjá nærþjónustu aukast. Þessi suðurbæjarreitur er á framtíðar miðbæjarsvæði. Þar viljum við sjá verslanir og þjónustu á jarðhæðum og íbúðir á efri hæðum. Deiliskipulags og hönnunarvinna um taka einhverja mánuði en við vonumst til að framkvæmdir geti hafist innan tveggja ára og að allt svæðið verði fullbyggt innan 6-8 ára. Við höfum átt í góðu samtali við Reykjanesbæ að þróa svæðið og að uppfæra rammskipulag fyrir Ásbrú og síðan er það á döfinni að vera í meira samtali við íbúa á svæðinu en einnig að bjóða út fleiri reiti á Ásbrú. Við finnum klárlega fyrir meiri áhuga fyrirtækja og aðila á Ásbrúarsvæðinu,“ segir Samúel Torfi.