Fyrsta hjólastólarólan á Íslandi í Reykjanesbæ
Ný hjólastólaróla var tekin í notkun við 88 húsið í Reykjanesbæ sl. föstudag. Rólan er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi en hún er staðsett í ört vaxandi ungmennagarðinum við 88 Húsið við Hafnargötu.
Ástvaldur Ragnar Bjarnason fékk þann heiður að fara fyrstu ferðina en hann skemmti sér konunglega. Boðið var upp á grillaðar pylsur og Sóley Þrastardóttir formaður Ungmennaráðsins flutti stutt ávarp sem og Árni Sigfússon bæjarstjóri.
Sóley sagði að þeir sem væru bundnir við hjólastól ættu að eiga sama rétt og aðrir á að skemmta sér. Það að róla hafi hingað til ekki verið fyrsti kostur fyrir þá sem eru í hjólastól, en með tilkomu þessarar rólu myndi það vonandi breytast til hins betra. „Vonandi verður þessi nýja róla mikið notuð og mín ósk er sú að það verði mjög skemmtilegt að róla í henni,“ sagði Sóley við vígslu rólunnar.