Fréttir

Fyrsta flug WOW air til Detroit
Fimmtudagur 26. apríl 2018 kl. 10:59

Fyrsta flug WOW air til Detroit

- Flug hafið á Stansted flugvöll

Fyrsta flug til Detroit var í gær og í tilefni af því var efnt til hátíðarhalda á Keflavíkurflugvelli og Detroit Metropolitan flugvelli þar sem farþegum var boðið upp á köku og aðrar léttar veitingar. Flogið verður til Detroit fjórum sinnum í viku, á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum í Airbus A321 vél flugfélagsins. Flugtíminn er sex og hálfur klukkutími en lent er í Detroit rétt fyrir miðnætti að staðartíma. Þetta er níundi áfangastaður WOW air í Bandaríkjunum en þeir verða samtals 13 í lok maí.

Detroit er stærsta borgin í Michigan ríki Bandaríkjanna. Hún er mikill suðupottur menningar og listalífs en mikill uppgangur er í Detroit um þessar mundir. Borgina prýða mörg falleg mannvirki en árið 2015 hlaut hún þá viðurkenningu að vera kölluð „City of Design“ af UNESCO en hún var fyrsta bandaríska borgin til þess að hljóta þá nafngift. Í Detroit má finna Motown safnið sem heiðrar þessa frægu tónlistarstefnu en hljómsveitir á borð við The Supremes og Jackson 5 tóku sín fyrstu skref undir hennar formerkjum. Í Detroit Institute of Arts má sjá tilkomumikið vegglistaverk eftir Diego Rivera svo dæmi sé tekið. Detroit er auk þess mikil íþróttaborg og ættu allir íþróttaunnendur að finna eitthvað við sitt hæfi.

Public deli
Public deli

Í gær var einnig byrjað að fljúga til og frá Stansted flugvelli í London í glænýrri Airbus A321ceo vél sem ber heitið TF DOG. Í tilefni af því var farþegum á Stansted flugvelli boðið upp á kökur og kræsingar. Flogið verður daglega frá Íslandi en flogið er á einstaklega hagstæðum tímum fyrir Íslendinga en brottför er á hádegi frá Íslandi og klukkan 17:20 frá London.