Fyrsta fjölskyldusetur landsins
-gamla barnaskólahúsið í Keflavík fær nýtt hlutverk
Fjöldi fólks tók þátt í opnun Fjölskylduseturs Reykjanesbæjar um helgina, en það var formlega opnað sl. föstudag. Í setrinu eru eru fjórir þættir sem skipa stærstan sess í starfsmei þess; almenn foreldrafræðsla, sértæk námskeið, forvarnarmál og rannsóknir.
Árni Sigfússon fráfarandi bæjarstjóri kynnti hugmyndafræði verkefnisins og tilurð þess. Að því loknu opnaði Anna Lóa Ólafsdóttir forseti bæjarstjórnar setrið formlega og ræddi um mikilvægi þess að samfélagið stæði saman í málefnum fjölskyldunnar og að Fjölskyldusetur væri góð viðbót við þau úrræði sem þegar standa fjölskyldum til boða í bæjarfélaginu. Anna Lóa Ólafsdóttir forseti bæjarstjórnar afhenti einnig Kristínu Lind Steingrímsdóttur markaðsstjóra IKEA þakklætisvott fyrir rausnarlegan stuðning við verkefnið, en fyrirtækið sá um að innrétta húsið.
Á laugardaginn var síðan opnunarhátíð í Fjölskyldusetrinu þar sem leikskólabörn í Reykjanesbæ voru sérstakir boðsgestir. Fjöldi fólks heimsótti setrið á opnuninni og lét vel af nýju hlutverki húsnæðisins að Skólavegi 1. Unga fólkið var ekki síður ánægt með daginn en sérstök barnadagskrá var fyrir yngstu kynslóðina.
Sigurður Þorsteinsson yfirsálfræðingur á fræðslusviði Reykjanesbæjar. Anna Hulda Einarsdóttir starfsmaður á Fjölskyldusetrinu og María Gunnardóttir, forstöðumaður barnaverndar Reykjanesbæjar.
Að sögn Sigurðar Þorsteinssonar, yfirsálfræðings á fræðslusviði Reykjanesbæjar, og Maríu Gunnardóttur, forstöðumanns barnaverndar Reykjanesbæjar, er hið sögufræga hús á Skólaveginum, tilvalið fyrir starfssemi að þessu tagi. Þar hafi alla tíð verið innanhús fræðsla af einhverju tagi. „Með fjölskyldusetrinu erum við að sameina allt það góða sem er í boði í Reykjanesbæ. Þetta er fyrsta fræðasetur fyrir fjölskyldur á landinu og við erum ægilega stolt af því að þetta skuli vera hér í Reykjanesbæ,“ segir María. „Við fæðumst ekki sem fullkomnir foreldrar. Við þurfum fræðslu og þess vegna er svo mikilvægt að samfélagið vilji þiggja þessa þjónustu.
Sigurður segir að foreldrafræðsla byggist á því að gera foreldra betri í sínu hlutverki og styrkja þá. Að fólk sé öruggt og líði vel með það sem að er að gera. Notagildi hússins á að vera margþætt að sögn Sigurðar „Við erum að bjóða húsnæðið til annara stofnanna og félaga líka. Við viljum búa til sterka heild fyrir fjölskyldurnar hérna í bænum. Við viljum að allri þeir sem hafa eitthvað fram að færa hafi aðstöðu til þess að koma því áleiðis.
Fjölmenni var við vígslu fjölskyldusetursins. Bæjarstjórinn og frú voru þar á meðal.