Fréttir

Fyrsta fimm stjarna hótelið á Íslandi formlega opnað
Diamond Suites var formlega opnað á þriðjudag á 30 ára afmæli Hótel Keflavík. Á myndinni má sjá Davíð Jónsson, aðstoðarhótelstjóra og Steinþór Jónsson, hótelstjóra klippa á borða í tilefni af opnuninni. Við hlið Davíðs er eiginkona hans, Eva Dögg Sigur
Föstudagur 20. maí 2016 kl. 06:00

Fyrsta fimm stjarna hótelið á Íslandi formlega opnað

Þrjátíu ára afmæli Hótel Keflavík var fagnað á þriðjudag. Af því tilefni var Diamond Suites formlega opnað en það er á efstu hæð hótelsins og er fyrsta fimm stjarna hótelið á Íslandi. Á hótelinu eru fimm svítur og stofa. Gestir geta leigt eina og eina svítu eða alla hæðina sem er 280 fermetrar. Að sögn Steinþórs Jónssonar, eiganda og hótelstjóra á Hótel Keflavík, hefur vantað slíka lúxusgistingu hér á landi. „Hingað til okkar hafa komið lúxusgestir eins og Meat Loaf, hljómsveitin Herman´s Hermits og Beyoncé og Jay Z. Við erum því aðeins búin að fá smjörþefinn af því að vera með frægt fólk og fólk sem vill lúxus. Við þurfum að auka þjónustu við þennan hóp. Það er mikilvægt til framtíðar fyrir íslenska ferðaþjónustu,“ segir hann.

Lögð er áhersla á persónulega þjónustu við gesti Diamond Suites og daglega er reiddur fram morgunverður eftir óskum hvers gests. Þá fylgir Range Rover með einkabílstjóra og möguleiki á einkakokki og einkaþjálfara. Framkvæmdir við svíturnar hafa staðið í um eitt og hálft ár og er hvert rými sérhannað.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þegar Hótel Keflavík var opnað voru fá hótel hér á landi, fjöldi ferðamanna aðeins brotabrot af því sem hann er í dag og Bláa lónið ekki komið til sögunnar. Fyrstu gestir hótelsins þegar það var opnað árið 1986 voru sjóstangaveiðimenn og segir Steinþór þann dag hafa farið að mestu í drulluvinnu þar sem þeir geymdu aflann sinn undir rúmum. Hótelið hefur verið rekið af sömu fjölskyldunni frá upphafi.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á þriðjudag í opnunarhófi Diamond Suites.

Hildur Sigurðardóttir og Guðlaug Helga Jónsdóttir.

Birgir Ingibergsson og Lúðvík Gunnarsson létu fara vel um sig í stofunni á Diamond Suites.