Fyrrum skólastjóri vandar Reykjanesbæ ekki kveðjurnar
Guðrúnu Snorradóttur var sagt upp störfum sem skólastjóra Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ í desember síðastliðnum, áður en henni tókst að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort áminning sem henni var veitt í aðdraganda uppsagnarinnar stæðist lög. Hún sakar Gylfa Jón Gylfason, fræðslustjóra bæjarfélagsins, um valdníðslu. Frá þessu er greint á vefsíðu Pressunnar í morgun.
Mál Guðrúnar gegn Reykjanesbæ er á dagskrá héraðsdóms Reykjaness í dag. Fádæma valdníðsla og hroki, sem leiða mun af sér skaðabótaskyldu, segir skólastjórinn fyrrum sem var rekinn meðan mál var enn fyrir dómstólum. Skólastjórinn hafði áður fengið 7 daga til að „bæta ráð sitt“.
Upphaflega stóð til að fá áminningu hnekkt, sem Gylfi Jón veitti Guðrúnu 5. desember síðastliðinn, en hann hafði hraðar hendur og rak hana á grundvelli áminningarinnar 27. desember. Þá voru liðnar þrjár vikur frá því að áminningin var gefin en með hliðsjón af frídögum í desember og veikindum Guðrúnar voru henni ekki gefnir nema sjö skóladagar til að „bæta ráð sitt“, eins og það er orðað í uppsagnarbréfinu.
Jafnframt segir í bréfinu að hún hafi haft bæði tíma og tækifæri, eftir að áminningin var gefin, til að bæta úr „vankunnáttu, óvandvirkni og ófullnægjandi árangri í starfi“.
Guðrún og lögmaður hennar, Guðni Ásþór Haraldsson, eru hins vegar á því að ekki standi steinn yfir steini í stjórnsýslu fræðslustjórans. Hann hafi bæði brotið á rétti hennar og gert henni ómögulegt að verja hendur sínar.
Atvik, sem hann hafi byggt á, séu óljós og ósönnuð, rannsóknarregla stjórnsýslulaga og meðalhófsregla hafi verið þverbrotin, sömuleiðis hafi leiðbeiningarskylda verið virt að vettugi og þar að auki ákvæði kjarasamninga.
Guðrún skrifaði bæjaryfirvöldum bréf þar sem hún fór fram á ógildingu á ákvörðun Gylfa Jóns en bæjarráð hafnaði því 12. janúar sl.
Í bréfinu benti hún á að fræðslustjórinn ætlaðist til þess að hún hefði á þeim sjö vinnudögum sem um er að ræða eftir að áminningin var gefin út átt að halda vikulega fundi með stjórnendum Myllubakkaskóla og boða þá með dagskrá. Þá hafi hann ætlast til að hún gerði ráðstafanir vegna tveggja vikna feðraorlofs kennara sem hófst á meðan hún var í veikindafríi, jafnvel þótt forfallakennsla heyrði undir starfssvið aðstoðarskólastjóra sem aukinheldur leysti skólastjóra af í veikindum.
Nánar má lesa um málið á Pressunni.