Fyrirtækjaeigendur í Grindavík vilja geta starfað í bænum
„Það verður ekkert mál að fara vinna hér í Grindavík aftur, það eru allir að stefna í þá átt og sumir eru byrjaðir nú þegar,“ sagði Sigmar Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Hópsness, að loknum fundi sem Atvinnuteymi Grindavíkur stóð að fyrir atvinnurekendur í Grindavík í síðustu viku.
Á fundinum fór Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við jarðeðlisfræðideild Háskóla Íslands yfir sögu jarðhræringa á Reykjanesskaganum og Böðvar Tómasson verkfræðingur hjá Örugg verkfræðistofu, kynnti gerð öryggisáætlana og fjallaði um almennar og sértækar kröfur vegna aðstæðna í Grindavík.
„Við gátum flutt hluta af okkar starfsemi á höfuðborgarsvæðið en við erum með talsvert af fasteignum í Grindavík sem við leigjum út og við vitum ekki hvað verður með flutningaþjónustuna til Grindavíkur, það er meiri óvissa. Varðandi nánustu framtíð vona ég bara að sem mest starfsemi geti hafist sem fyrst og vonandi getur fólk farið að flytja aftur í bæinn en auðvitað ræðst það af næstu atburðum, erum við að fara lifa við eldgosaógn? Hugsanlega þurfum við að rýma bæinn á meðan mesta ógnin er til staðar og svo bara inn aftur, svona gætum við þurft að hafa þetta næstu árin og ég sé því ekkert til fyrirstöðu. Sjálfur bý ég í Hafnarfirði ásamt eiginkonu minni, ég er líka að vinna úti á landi svo það hentar ágætlega en við verðum bara að sjá hvernig þessi mál muni þróast,“ sagði Sigmar.
Starfsemi í gang eftir næsta gos
Gísli Níls Einarsson vinnur að öryggismálum hjá útgerðarfyrirtækinu Vísi hf. „Fyrstu viðbrögð mín af fundinum eru góð, það var gott að heyra Magnús Tuma fara yfir sögu jarðhræringa á svæðinu og hvernig hann telji mál muni þróast næstu mánuði og ár. Sömuleiðis gott að hann telji ásættanlega áhættu að hefja starfsemi á ný. Við hjá Vísi ætlum að sjá næsta atburð klárast og svo geri ég ráð fyrir að við hefjum strax starfsemi. Okkar vinna ásamt öryggisstjóra Þorbjarnar og einum fulltrúa frá minni fyrirtækjum, hefur verið að vinna með Almannavörnum og Örugg verkfræðistofu sem er að vinna fyrir Almannavarnir, að gerð leiðbeininga varðandi öryggisáætlanir fyrir fyrirtækin sem ætla sér að starfa í Grindavík. Það var komið ákveðið upplegg frá verkfræðistofunni sem var góður grunnur að byggja á en sömuleiðis var farið yfir öryggisáætlanirnar hjá Vísi og Þorbirni. Við hjá Vísi vorum búin að endurskoða allar okkar áætlanir áður en fyrsta eldgosið átti sér stað. Ég myndi segja að þessi vinna hafi gengið vel, það eina sem okkur finnst vanta er að fá upplýsingar frá Almannavörnum um hvernig staðan er á sprungunum, það er verið að skima svæðið, ég myndi vilja sjá niðurstöður úr því svo við getum betur tryggt öryggi þeirra sem eru að fara starfa í Grindavík,“ sagði Gísli Níls.
Ferðamenn inn í bæinn
Búið var að opna veitingastaðurinn Papas pizzur í byrjun janúar og viðskiptin jukust hægt og örugglega. Þormar Ómarsson, annar eigenda Papas vill sjá ferðamönnum hleypt sem fyrst til Grindavíkur, alveg eins og þeim er hleypt í Bláa lónið.
„Það er auðvitað ekki sama staða og í byrjun árs, það er ekki alveg sama bjartsýni eins og var þá þegar búið var í um 90 íbúðum og húsum í Grindavík og mikil starfsemi en svo þurfti að loka öllu. Við erum tilbúnir að opna með vorinu ef ferðamönnum verður hleypt inn í bæinn. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu þegar búið er að laga sprungur og girða aðrar af, það er enginn munur á þeim eða háum klettum út um allt Ísland eða Reynisfjöru t.d., þetta eru allt saman hættulegir staðir sem fólk veit af, það þarf bara að merkja þetta svo fólk fari sér ekki að voða. Það hafa verið túristar inn í bænum meira og minna síðan gaus 14. janúar, ef þeim verður hleypt inn í bæinn með vorinu getur Grindavík heldur betur blómstrað á ný. Það verður bara að fara í að laga þessar sprungur og gera bæinn eins öruggan og hugsast getur, svo vil ég bara hleypa túristum inn. Við viljum í raun bara fá að sitja við sama borð og þessi stóru fyrirtæki eins og Bláa lónið. Við erum komin með varnargarða fyrir utan Grindavíkur, ég sé ekki að við séum eitthvað óöruggari hér en þeir sem eru í Bláa lóninu. Ég er alltaf bjartsýnn og vona að lögreglustjórinn muni opna bæinn fyrir túristum með vorinu, það verður mikið að gera hjá okkur og þeim sem eru í þessum bransa hér í Grindavík,“ sagði Þormar að lokum.