Fyrirtæki ársins 2007: Keilir og Háskólavellir ehf.
Árið 2007 markaði tímamót í sögu Suðurnesja þar sem nýr kafli í atvinnusögu svæðisins var skrifaður. Þetta var fyrsta árið eftir að Kaninn fór fyrir fullt og allt og tók með sér hundruð starfa í Reykjanesbæ og nágrannasveitarfélögunum.
Víða hefðu mönnum ef til vill fallist hendur enda risavaxið verkefni framundan við að endurreisa atvinnulíf heils landshluta. Sú varð hins vegar ekki raunin því stórhuga menn og konur, að frumkvæði heimamanna, hafa lyft Grettistaki og lagt grunn að einu framsæknasta þekkingarsamfélagi landsins.
Tveir aðilar, Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs og Háskólavellir ehf., hafa staðið í fararbroddi uppbyggingarinnar á Vallarheiði þar sem er nú háskólaþorp þar sem um 1.100 manns búa. Fleiri aðilar hafa vissulega átt sinn þátt í starfinu, en Víkurfréttir hafa ákveðið að útnefna Keili og Háskólavelli ehf. fyrirtæki ársins á Suðurnesjum árið 2007.
Keilir– miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs
Eitt stærsta einstaka skref í menntamálum þjóðarinnar var stigið síðastliðinn marsmánuð þegar fjölmargir öflugir aðilar, Háskóli Íslands þeirra fremst í flokki, undirrituðu viljayfirlýsingu um stofnun félags um háskólarekstur á gamla varnarsvæðinu sem nú er kallað Vallarheiði.
Það markaði upphaf Keilis, sem hefur síðan vaxið með ótrúlegum hraða og telur nú þegar á annað hundrað nema í frumgreinadeild.
Gríðarlegir möguleikar
Runólfur Ágústsson er framkvæmdastjóri Keilis og að mörgu leyti guðfaðir þess fyrirtækis eftir að hafa leitt þróunarvinnu vegna háskólanáms á svæðinu frá upphafi. Hann segir að hann hafi fyrst um sinn verið efins um grundvöll fyrir slíkri starfsemi. „Svo lagðist ég yfir málið og sá að hér voru gríðarlegir möguleikar. Þróunarvinnan var mjög skemmtileg en að henni komu fulltrúar frá Háskólavöllum, Reykjanesbæ og Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar. Svo er Keilir stofnaður formlega í maí og okkur lánaðist að fá til okkar fjármagn, öflugan bakhjarl í Háskóla Íslands og flest helstu útrásar- og orkufyrirtæki landsins í samstarf með okkur.“
Vöxtur langt umfram væntingar
Hlutirnir gerðust hratt í kjölfarið og var uppgangurinn á svæðinu framar björtustu vonum. Háskólasamfélag varð til þar sem fyrst var gert ráð fyrir að íbúar á svæðinu yrðu um 900 árið 2009. „Þetta þótti ýmsum býsna bratt farið og lítt raunhæft en í dag er staðan sú að sex mánuðum eftir að fyrstu íbúarnir fluttu hingað inn búa hér um 1.100 manns,“ segir Runólfur.
Nokkur lykilatriði liggja þar á bak við, en til dæmis gekk undurfljótt að hleypa af stokkunum skólastarfi Hjallastefnunnar þar sem nú eru um 100 börn á leikskólanum og um 50 börn í 1.- 4. bekk grunnskóla.
„Við lögðum einnig áherslu á að samgöngur fyrir íbúa inn í Reykjavík yrðu ókeypis og síðan má segja að ÍAV-þjónusta hafi, í samstarfi við Þróunarfélagið, gert kraftaverk þegar þeir standsettu 300 íbúðir á fimm vikum.“
Bæjarbragur er óðum að komast á á Vallarheiði þar sem verslun hefur opnað þar og kaffihús, veitingastaðir og bankaútibú eru meðal annars á teikniborðinu auk þess sem starfsemi er hafin í íþróttahúsinu.
Reiðubúin í næsta skref
„Nú erum við í Keili reiðubúin til að taka næsta skref sem er efling námsins,“ segir Runólfur og bætir því við að vinna standi nú yfir við undirbúning kennsluskrár fyrir næsta haust.
„Við fengum fljúgandi start fyrir frumgreinadeildina í haust þar sem umsóknir voru langt umfram áætlanir og erum nú með 110 nema og vorum líka að taka inn um 40 nema í fjarnámi vegna mikillar eftirspurnar, aðallega frá Austurlandi.“
Runólfur segir að starfið hafi gengið ótrúlega vel og þeir sem hafa komið að þessu starfi, Keilir, Háskólavellir, Þróunarfélagið og Reykjanesbær, undir afgerandi forystu bæjarstjóra, hafi starfað saman sem einn maður og unnið þrekvirki. Einnig hafi Keilir verið ótrúlega heppinn með starfsfólk sem leggur sig allt fram við störf sín. Hann sér enn frekari vöxt framundan þar sem innan fárra ára verði 4.000 til 5.000 manna alþjóðlegt þekkingarsamfélag á Vallarheiði.
Mesta vaxtarsvæði á landinu
„Ég hef þá trú að hér á Flugvallarsvæðinu og í Reykjanesbæ verði mesta vaxtarsvæði landsins á næstu 5 til 10 árum og við í Keili erum bara eitt tannhjólið í þessari spennandi framtíðarsýn. Háskólasvæðið er einn af stólpunum sem framtíð Suðurnesja byggir á og Reykjanesbær er að verða leiðandi þekkingarsamfélag sem er mjög aðlaðandi kostur fyrir fyrirtæki nútímans. Þegar kostirnir sem fylgja alþjóðaflugvellinum eru líka teknir inn í reikninginn mun þungamiðja höfuðborgarsvæðisins, sem við tilheyrum nú þegar, færast hingað suður eftir.
Hér er ódýrt að búa, hér er gott að búa og hér er vænlegur staður til uppbyggingar á fyrirtækjum og þegar þessir þættir koma saman er það formúlan fyrir sigurvegara!“
Háskólavellir ehf.
Halldór Ragnarsson er stjórnarformaður Háskólavalla ehf. sem hefur verið einn af burðarásum upbyggingarinnar á Vallarheiði. Að fyrirtækinu standa Þrek/Húsanes, Klasi, Glitnir og Sparisjóðurinn í Keflavík, en í fyrstu voru Verðbréfastofa og Reykjanesbær einnig meðal hluthafa. Markmið félagsins var að standa vörð um fasteignamarkaðinn á Suðurnesjum með því að stuðla að uppbyggingu háskólasamfélags á gamla Varnarsvæðinu.
Vildi fyrst láta rífa húsin
Í samtali við Víkurfréttir sagði Halldór að við brotthvarf hersins hafi Húsanes haft miklar áhyggjur af því hvað yrði um fasteignirnar á Vellinum og hvaða áhrif þær gætu haft á fasteignamarkaðinn á Suðurnesjum.
„Okkar fyrsta skoðun var að öll húsin skyldu rifin. Hér væru fyrirtæki, lánastofnanir og almennir húseigendur sem hefðu getað orðið illa úti ef húsin hefðu farið beint í almenna sölu og leigu og fasteignamarkaðurinn eyðilegðist.“
Halldór skipti síðar um skoðun varðandi niðurrifin er hann sá með eigin augum hvað húsin voru í góðu ástandi.
Háskólahugmynd fæðist
Í október 2006 fór hann svo út til Prag til að heimsækja Heiðar Lár, son sinn, sem var búsettur þar. Þar fengu þeir feðgar hugmyndina að því að hafa frumkvæði að uppbyggingu háskólasamfélags á svæðinu og fengu Runólf Ágústsson, fyrrum rektor á Bifröst, til liðs við sig.
Halldór hafði þegar heim kom, samband við ýmsa aðila um stofnun hluthafahóps sem síðar varð Háskólavellir og var, undir forystu Runólfs, hafinn undirbúningur að háskólasvæðinu í nánu samstarfi við Þróunarfélagið á Keflavíkurflugvelli og Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar.
14 milljarða fjárfesting
Starfið gekk vel og sumarið 2007 var Keilir stofnaður og voru Háskólavellir einn af bakhjörlum hans. Með stofnun Keilis var aðkomu Háskólavalla að skólarekstrinum að mestu lokið þó félagið eigi enn lítinn hlut í skólanum. Í kjölfarið tók við næsta verkefni félagsins en það var kaup á um 1.670 íbúðum á Vallarheiði á 14 milljarða króna. Um það leyti gengu Verðbréfastofa og Reykjanesbær út úr verkefninu og í staðinn komu inn Glitnir og SpKef.
„Þetta er auðvitað mjög áhættusamt verkefni,“ segir Halldór. „En við treystum á það að uppbyggingin hér á Suðurnesjum og í kringum flugvöllinn verði að veruleika og leiði til fólksfjölgunar sem þetta húsnæði getur tekið við. Það er ekki hægt að hleypa þessu inn á markaðinn óhindrað og við munum ekki gera það nema að markaðurinn geti tekið við því, enda eru bindiákvæði þar um í samningnum við Þróunarfélagið.“
Áður en að því kemur er þó margt ógert því framundan er kostnaður upp á hundruð milljóna við raflagnaskipti og umbyltingu á ytra byrði húsanna og öllu umhverfi, sem er nú verið að hanna í samstarfi við breska arkitektastofu.
Ómaklegar samsæriskenningar
Kaup Háskólavalla á fasteignunum voru umdeild á sínum tíma þar sem ýmsir stjórnmálamenn sáu þar spillingu í hverju horni, en Halldór segir gögn sýna að ekkert óeðlilegt hafi þar átt sér stað og samsæriskenningarnar hafi verið mjög ómaklegar og ósanngjarnar svo það hafi hreinlega gengið fram af honum.
„Þegar öllu var á botninn hvolft kom í ljós að við buðum hæsta verðið og vorum eini aðilinn sem bauð í þennan fjölda fasteigna og hafði einhverja heildarsýn fyrir svæðið og framtíð þess. Við lögðum allan okkar kraft í verkefnið og ég get sagt að, þó ég hafi átt stóran hlut að máli, að þetta það hafi tekist mjög vel og það er ánægjulegt að hafa tekið þátt í því að það hafi orðið að veruleika.
Ég fór um svæðið í síðasta mánuði og ég get sagt að það gladdi mitt litla hjarta að sjá börn að leik á skíðum og sleðum í brekkunum, jólaljós í gluggum og hverfið iðandi af lífi. Ég fylltist stolti og þakklæti fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu metnaðarfulla verkefni.“
Loks vill Halldór þakka fyrir þessa ánægjulegu viðurkenningu og óska öllum Suðurnesjamönnum árs og friðar.
Texti: Þorgils Jónsson
Myndir: Þorgils, elg, pket og Oddgeir Karlsson.