Fyrirmynd til framtíðar
„Mikilvægt er að samfélagsþjónusta verði höfð í öndvegi. Við ætlum okkur að vera leiðandi stofnun á sviði heilsugæslu, í þjónustu við aldraða og langveika sem og á sviði almennrar sjúkrahúsþjónustu og nærþjónustu,“ segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í viðtali við Víkurfréttir. Umræða um starfssemi HSS hefur verið fyrirferðamikil á undanförnu árum og mikið gengið á og VF lagði nokkrar spurningar fyrir Sigríði.
Það hefur gustað um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á undanförnum mánuðum og árum. Getur þú útskýrt hvers vegna?
Þjónusta heilbrigðisstofnana er í eðli sínu viðkvæm þjónusta, hún snertir flestar fjölskyldur og þá helst þegar erfiðleikar og sjúkdómar steðja að. Eðlilega er oft grunnt á þolinmæði hjá fólki sem tekst á við svo margvísleg önnur vandamál nú. Það þarf að virða. Ef horft er til baka má sjá að HSS hefur gjarnan lent í þeirri aðstöðu að vera pólitískt bitbein stríðandi afla sem er afar óheppilegt. Það eru skiptar skoðanir meðal manna hvernig þjónustan skuli veitt, hvar, hvenær og af hverjum. Sumir vilja fá meiri þjónustu en boðið er upp á og aðrir eru ósáttir við hvernig þjónustu er forgangsraðað. Sl. ár hefur verið óvenju erfitt á HSS eins og víðast annars staðar og mikill niðurskurður hefur verið hjá okkur allt frá árinu 2008. Ég fullyrði þó að við erum með fjölmennan hóp af mjög hæfu starfsfólki sem allt leggur sig fram við að gera sitt besta við misjafnar kringumstæður. Starfsfólk á hrós skilið fyrir það sem vel er gert og fá þannig hvatningu til áframhaldandi dáða. Gagnrýni þarf að vera málefnaleg og uppbyggileg annars gerir hún meira ógagn en gagn.
Er sú gagnrýni sem fram hefur komið á starfsemi HSS réttmæt?
Það er ljóst að heilbrigðisþjónusta verður ekki veitt án fagfólks. Ekki hefur farið fram hjá neinum að við glímum við skort á heilsugæslulæknum samfara mikilli fólksfjölgun og vaxandi atvinnuleysi. Skortur á heilsugæslulæknum er ekki eingöngu hér á Suðurnesjum heldur um allt land, því miður. Þegar fáir læknar eru starfandi, taka þeir fleiri kvöld- og næturvaktir í hverjum mánuði. Þannig ávinna þeir sér mikið frí og um leið eykst fjarvera þeirra. Óánægja íbúa með erfitt aðgengi að heilsugæslulæknum sl. ár varð til þess að Landlæknisembættið gerði úttekt á þjónustu heilsugæslu HSS. Niðurstaða þeirrar úttektar leiddi engu að síður í ljós að almennt er sú þjónusta sem veitt er á HSS bæði hagkvæm og vel sambærileg við flestar heilsugæslur á landinu. Sums staðar erum við í fararbroddi eins og t.d. með forvarnar- og meðferðarteymi, líknandi meðferð, hraðmóttöku, aðgengi að lyfjaendurnýjunum og heimahjúkrun. Í öðru getum við bætt okkur eins og hvað varðar bið eftir tímum hjá læknum, sem hefur þó batnað verulega. Allar athugasemdir eru vel þegnar og við reynum að gera enn betur þar sem það á við og miðlum til annarra sem vilja læra af því sem við höfum fram að færa.
Hvað hafið þið þurft að skera mikið niður að undanförnu og hvernig hafið þið gert það?
Frá árinu 2008 hefur verið skorið niður í rekstri á HSS um rúm 10% eða um 211 m.kr. (verðlag 2009) og sértekjur til stofnunarinnar hafa minnkað yfir 20% á sama tíma eða um 35 m.kr. Heilbrigðisstofnunin hefur hingað til ekki þótt ofalin á sínum fjárveitingum, þrátt fyrir það er rekstur HSS nú í góðu jafnvægi og verður vonandi áfram. Þessi niðurskurður hefur ekki verið án fórna en hann hefur tekist með sameiginlegu átaki alls starfsfólks. Allar hugmyndir hafa verið skoðaðar, jafnt stórar sem smáar. Starfseiningum hefur verið lokað, stjórnendum hefur fækkað, starfsfólki hefur fækkað, vinnuhlutfall starfsfólks hefur lækkað, yfirvinna hefur minnkað, aksturskostnaður hefur minnkað og nú síðast í vor var skurðstofum HSS lokað svo dæmi séu tekin. Ýmsar úttektir hafa verið gerðar til að bera saman hagkvæmni þjónustu á bæði Kragasjúkrahúsunum (Selfossi, Akranesi, St. Jósefsspítala og HSS) og Landspítalanum. Nýlega stóð heilbrigðisráðuneytið fyrir einni slíkri úttekt sem var aðallega unnin af starfsfólki Landspítalans. Sú könnun leiddi í ljós að hagkvæmara væri að veita þjónustu á Landspítalanum. Skömmu síðar stóðu sveitarfélögin í nágrenni höfuðborgarinnar fyrir annarri könnun sem leiddi til þver- öfugrar niðurstöðu, þ.e. að þjónusta á Kragasjúkrahúsunum væri ódýrari en á Landspítalanum. Hér þarf að skerpa á og hafa til hliðsjónar bestu faglegu rök svo ákvarðanataka sé vönduð. Réttlát fjárveiting í samræmi við kröfur um þjónustu og starfsemi heilbrigðisstofnana m.t.t. þarfa íbúa er nauðsynleg. Í þessum kostnaðarsama málaflokki hlýtur að verða að gera þá kröfu að hægt sé að leita til hlutlausra sérfræðinga svo ekki þurfi að efast um réttmæti og áreiðanleika útkomu þess sem verið er að kanna.
Það hefur heyrst minna af óánægjuröddum í sumar. Hvernig stendur á því?
Það eru eflaust margar ástæður fyrir því. Kannski má segja að á eftir stormi komi logn. Sl. vetur var erfiður og atvinnuleysið þrúgandi sem magnar alla óánægju. Fólk leitar að leiðum til að fá útrás fyrir vonbrigði sín. Við stóðum frammi fyrir óvinsælum ákvörðunum í rekstri sem höfðu víða áhrif á þjónustu við skjólstæðinga og starfsfólk. Skortur var á fagfólki og þá sérstaklega læknum. Reynsla síðustu ára sýnir að eftirspurn eftir þjónustu er gjarnan minni yfir sumartímann. Engu að síður hefur framboð á heilsugæsluþjónustu aukist aftur og ýmsar spennandi nýjungar eru á döfinni. Fleira starfsfólk er að koma til starfa bæði á sjúkrahúsi og heilsugæslu og uppbyggingarstarf er hafið enn á ný.
Hvað er framundan hjá ykkur í starfseminni?
Við þær áherslubreytingar sem orðið hafa á þjónustunni sl. mánuði er nauðsynlegt að endurskilgreina hlutverk HSS og fara í stefnumótun til næstu ára. Umfangsmikil vinna átti sér stað meðal alls starfsfólks í vor og nú verður haldið áfram. Mikilvægt er að samfélagsþjónusta verði höfð í öndvegi. Við ætlum okkur að vera leiðandi stofnun á sviði heilsugæslu, í þjónustu við aldraða og langveika sem og á sviði almennrar sjúkrahúsþjónustu og nærþjónustu. Við viljum vera stolt samfélagsins jafnframt því að vera góður vinnustaður. HSS er þjónustustofnun, hennar hlutverk er fyrst og fremst að mæta þörfum samfélagsins eftir því sem fjármagn og starfskraftar leyfa. Við viljum að skjólstæðingar okkar og íbúar allir finni fyrir umhyggju starfsfólks, fagmennsku og virðingu þegar þeir leita til okkar. Við væntum þess að íbúar vinni með okkur að þessum markmiðum – það er allra hagur.
Nú hefur legið frammi undirskriftalisti á netinu og víðar um að ráðherra veiti leyfi til skurðstofuþjónustu í einkarekstri. Hvað er að frétta af því máli og hvernig er ykkar aðkoma að því?
Mér vitanlega er ekkert að frétta. Það verður áhugavert að fá að heyra skoðanir nýs ráðherra af því máli. Það er ekki hægt að líta fram hjá þeim miklu erfiðleikum sem Suðurnesin eru að fást við vegna atvinnuleysis á svæðinu. Hér er hvorki hefðbundinn landbúnaður né ferðamennska sem flest önnur landssvæði geta hallað sér að í auknum mæli. Flestar þær hugmyndir um nýsköpun í atvinnurekstri sem hafa verið settar fram hérna, falla í grýttan jarðveg hjá núverandi stjórnvöldum og vandamálin hlaðast upp.
Á HSS eru nýjar vel útbúnar skurðstofur sem gætu aflað okkur sértekna auk þess sem möguleiki væri á því að þjóna sjúklingum bæði hér á svæðinu og af höfuðborgarsvæðinu almennt. Þetta gæti verið annars vegar þjónusta sem er farin á stofur sérfræðinga í bænum og hins vegar þjónusta við erlenda sjúklinga af biðlistum í sínu heimalandi og væru tryggðir þar. Við höfum alltaf verið tilbúin að ræða eitthvert slíkt samkomulag sem gæti hagnast öllum aðilum málsins.
Viðtal: [email protected]