Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 16. október 2001 kl. 08:46

Fyrirhugað að flaka og frysta síld hjá Samherja hf. í Grindavík

Unnið er að uppsetningu flökunarlínu fyrir síld hjá Samherja hf. í Grindavík og að sögn Óskars Ævarssonar rekstrarstjóra er vonast til þess að verkinu verði lokið í þessari viku. Þetta kemur fram á vef InterSeafood.com.Í upphafi síldarvertíðarinnar var ekki ráðgert að vinna síld til manneldis á vestanverðu landinu en þar sem að veiðarnar hafa gengið treglega fyrir austan og að verð á síldarafurðum hefur ekki verið hærra í lengri tíma var ákveðið að veðja á síldarfrystingu hjá Samherja hf. í Grindavík.
-- Við veðjum á að síldin veiðist af krafti hér fyrir vestan þegar það líður á vertíðina og það er margt sem bendir til þess að það sé nóg af síld á vesturmiðunum. Skipin voru að síldveiðum á Halanum um daginn og Sighvatur Bjarnason VE mun hafa tekið nokkrar prufur á leiðinni frá Halamiðum um daginn og það varð mjög víða vart við síld. Hins vegar hefur síldin staðið djúpt og verið erfið viðureignar en hún ætti að gefa sig til fljótlega og þá skiptir miklu máli að vera með vinnslu sem næst miðunum, segir Óskar en hann reiknar með því að hægt verði að vinna úr um 200 tonna afla á sólarhring. Frystigetan í frystihúsinu í Grindavík er um 100 tonn á sólarhring en frystitækin hafa aðallega verið notuð til að frysta loðnuhrogn á síðustu vertíðum.
Það er umhugsunarefni nú þegar hátt verð fæst fyrir frysta og saltaða síld að svo til allar vinnslurnar eru á Austfjörðum og fjærst því svæði sem einkum er horft til að síldin veiðist á. Reyndar má búast við því að ef síld veiðist í verulegu magni fyrir vestan landið að þá verði reynt að flokka og frysta síld víðar en í Grindavík. Víða eru til flokkarar til þess að flokka uppsjávarfiska s.s. síld og m.a. er afkastamikil flokkunarstöð í Helguvík.

Sjá nánar á InterSeafood.com.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024