Fylgjum ungum börnum í skólann í óveðri
– Annar hvellur í nótt og fyrramálið
Í fyrramálið kann að verða ástæða fyrir forráðamenn til að fylgja ungum börnum í skólann þar sem önnur kröpp lægð er á leið yfir landið sunnan- og vestanvert árla morguns. Á þessum landsvæðum fóru líklega fáir varhluta af hamaganginum sem fylgdi lægðinni síðastliðna nótt. Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni segir að vindstyrkurinn verði litlu minni nú og vindáttin svipuð.
„Í nótt og í fyrramálið er spáð öðrum hvelli þegar ný lægð fer hratt nokkurn veginn í sömu slóð og hin fyrri. Það hvessir suðvestanlands skömmu fyrir miðnætti en allar líkur eru á að veðurhæð verði ekki alveg jafn mikil og síðustu nótt. Nú er spáð allt að 23 m/s meðalvindi í stað 25 m/s í gær. Á móti kemur að veðrið nær sennilega hámarki um fótaferðartíma í fyrramálið eða á milli klukkan 6 og 8 og geta hviður farið í 30-35 m/s. Upp frá því lægir heldur á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu en á Snæfellsnesi verður hins vegar stormur fram á daginn.“
Allt of margir gerðu lítið með viðvaranir í gær og létu undir hælinn leggjast að ganga frá, fergja eða festa lausamuni tryggilega. Það sem ekki er þegar fokið út í veður og vind er því brýnt að festa hið snarasta eða koma í öruggt skjól svo ekki hljótist skaði af. Eftir hvassviðri næturinnar þarf jafnframt að hreinsa lauf og annað rusl vel frá niðurföllum og tryggja að vatn eigi greiða leið bæði að þeim og niður úr. Leggjum ekki óþarfa vinnu á okkar vösku björgunarsveitir heldur bregðumst við í tíma.