Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Furðuverur hjá Víkurfréttum
Miðvikudagur 9. febrúar 2005 kl. 10:36

Furðuverur hjá Víkurfréttum

Í dag er öskudagur og þrátt fyrir kuldann láta krakkarnir sig hafa það að ferðast grímuklædd á milli fyrirtækja og syngja fyrir sykruð verðlaun. Að venju eru búningarnir fjölbreyttir og hafa hinar ýmsu furðuverur heimsótt Víkurfréttir í dag.

Öskudagshátíðin í Reykjanesbæ verður haldin í Reykjaneshöll í dag og er fyrir börn í 1. - 6. bekk og stendur frá kl. 14:00 til 16:00. Í Grunnskólanum í Grindavík er alltaf gaman á öskudaginn og þá klæðast nemendur og kennarar náttfötum og eiga saman góðan dag.

Öskudagur er upphafsdagur lönguföstu, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska. Dagsetning hans getur sveiflast á milli 4. febrúar til 10. mars. Öskudagur hefur lengi verið mikilvægur í katólska kirkjuárinu og nafn hans er dregið af því að þá er sumstaðar ösku dreift yfir höfuð kirkjugesta, og til þess notaður jafnvel sérstakur vöndur. Annarsstaðar þekkist að ösku sé smurt á enni kirkjugesta. Eins og lesa má á mörgum stöðum í Biblíunni, táknar aska hið forgengilega og óverðuga en að auki hefur hún verið talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Langafasta er hinn kirkjulegi tími iðrunar og dreifing ösku yfir söfnuðinn minnir hann á forgengileikann og hreinsar hann um leið af syndum.

Þótt hátíðleiki öskudagsins hafi minnkað og jafnvel horfið hér á landi við siðbreytinguna hélt fólk áfram að gera sér glaðan dag síðustu dagana fyrir lönguföstu og hér hafa þróast ýmsir siðir kringum bolludag, sprengidag og öskudag. Athyglisvert er að bolludagur (sem væntanlega fékk ekki nafnið fyrr en snemma á 20. öld) og öskudagur hafa að nokkru leyti skipt um hlutverk. Lengi vel var mánudagurinn í 7. viku fyrir páska hefðbundinn frídagur barna í skólum og þá tíðkaðist víða um landið að „marséra” í grímubúningum og að slá köttinn úr tunnunni, seint á 19. öld. Þeir siðir hafa væntanlega borist frá Danmörku eða Noregi. Árið 1917 hafði frídagurinn verið færður yfir á öskudaginn víðast hvar á landinu og siðirnir fluttust með. Að „marséra” og slá köttinn úr tunnunni datt þó víðast hvar uppfyrir á 20. öld, en hélst þó við á Akureyri og hefur þaðan breiðst út á ný.



www.visindavefur.hi.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024