Furða sig á úthlutunarreglum ráðuneytis
Í formlegu bréfi sem Bæjarstjórn Sandgerðis hefur ritað til Félagsmálaráðuneytis lýsir hún furðu sinni á þeim reglum sem lagðar eru til grundavallar við úthlutun ráðuneytisins við svokallaðar jöfnunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna samdráttar í aflamarki þorsks. Sem kunnugt er fékk Sandgerðisbær rétt rúma eina milljón króna við þessar jöfnunaraðgerðir af þeim 250 milljónum sem komu til úthlutunar.
Í bréfi bæjarstjóra til ráðuneytisins harmar hann þessar niðurstöður og bendir á þá mismunun sem fram kemur í úthlutunum til hinna ýmsu sveitarfélaga.
Í bréfinu bendir bæjarstjóri á að hér hljóti að vera um mistök að ræða þar sem hlutur Sandgerðisbæjar sé svo fjarri allri sanngirni í ljósi landaðs afla og stöðu Sandgerðishafnar, sem sífellt verði þyngri baggi á sveitarfélaginu, en þjóni öðrum sveitarfélögum sem þó fái mun hærra framlag.
Lýst er furðu yfir þeim reglum sem lagðar eru til grundvallar úthlutun ráðuneytisins og óskað er eftir viðræðum við ráðuneytið um málið.
„Þetta er niðurskurður á þorskveiðiheimildum og Sandgerðishöfn er í fjórða sæti hvað varðar þorsklöndun og með um 6% af heildarafla. Svo segir það sig sjálft að 6% af 250 milljónum er nær því að vera um tólf og hálf milljón, en ekki ein eins og við fengum,“ sagði Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri Sandgerðis, í samtali við VF í vikunni.
VF-Mynd/elg: Frá Sandgerði.