Fundur stjórnenda alþjóðarústabjörgunarsveita á Ásbrú
Á morgun hefst hér á landi fundur stjórnenda alþjóðarústabjörgunarsveita er starfa undir hatti INSARAG (International Search and Rescue Advisory Group), sem er hluti Sameinuðu þjóðanna. Fundinn sækja um 80 manns víðs vegar að úr heiminum en hann stendur í þrjá daga. Innan hópsins eru aðilar sem komið hafa að, og/eða stjórnað björgunarstörfum í mörgum af þeim stóru hamförum sem riðið hafa yfir heiminn undanfarin ár og áratugi.
Á fundinum verður unnið að því að móta samræmdar kröfur um getu og kunnáttu alþjóðabjörgunarsveita sem sendar eru á skaðasvæði til aðstoðar. Í framtíðinni er gert ráð fyrir að engar sveitir verði sendar af stað á vegum Sameinuðu þjóðanna nema þær sem hafa staðist úttekt á vegum stofnunarinnar. Þess má geta að Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin fer í slíka úttekt í september og er hún sú sjöunda í heiminum sem fer í gegnum það ferli sem er afar strangt.
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson / frá rústabjörgunaræfingu Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar í vor.