Fundur hjá Samtökum stofnfjáreigenda SPKEF: Rannsókn á fallinu hefjist strax
Stjórn Samtaka stofnfjáreigenda í Sparisjóðnum í Keflavík mun afhenda Alþingi bréf í dag þar sem farið er fram á að fyrirhuguð rannsókn á falli spairjsóðanna hefjist þegar í stað og að rannsóknarnefnd sparisjóðanna hafi sömu valdheimildir og rannsóknarnefnd Alþingis. Þetta kom fram á fundi samtakanna í sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja í gær.
Á fundinum var rannsóknarvinna stjórnar samtakanna kynnt. Þórunn Einarsdóttir, formaður samtakanna sagði sorglegt hvernig hefði farið fyrir þessari stofnun sem Suðurnesjamenn hefðu verið svo stoltir af og ánægðir með. Hún sagði ljóst að 20-30 manna hópur hefði fengið megnið af útlánum Sparisjóðsins síðustu árin. Þau hefðu flest verið með afar litlum tryggingum eða ónýtum veðum. „Regluverkið var allt í óreiðu og Sparisjóðsstjóri virðist hafa haft þau völd sem hann vildi án þess að þurfa að fá samþykki stjórnar,“ sagði Þórunn.
Í máli stjórnarmanna samtakanna kom fram að þeir telja að stofnfjáraukningarnar sem fram fóru árið 2007 hafi verið byggðar á röngum forsendum og hefði ekki átt að ná fram að ganga. Það hafi orðið til þess að mikill hluti stofnfjáreigenda sæti uppi með háar skuldir lánastofnunum sem mynduðust við kaup á handónýtum stofnfjárbréfum en stjórnendur sparisjóðsins höfðu eindregið hvatt fólk til lántöku vegna þessara kaupa.
Samtökin telja að eftirlitsaðilar, Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands, hafi með glæfralegu aðgerðarleysi, átt stóran þátt í því að óheilbrigð starfsemi sparisjóðanna hafi verið látin viðgangast alltof lengi.
Stofnfjáraðilar í Spkef voru 1750 en þeir töpuðu 16,5 milljarði á falli sparisjóðsins. Mjög góð mæting var á fundinn í gær og var stjórn samtakanna endurkjörin. Um 550 manns hafa greitt 2000 kr. árgjald til samtakanna sem vonast til að fleiri geri það. Fjármunirnir eru notaðir í rannsóknarvinnu tengdu falli Spkef. „Við höfum verið í eitt ár í þessari vinnu og lent á ýmsum veggjum, t.d. nánast verið hent út úr Fjármálaeftirlitinu. Ef fleiri myndu borga gætum við ráðið lögfræðing í meira starf fyrir samtökin sem væri nauðsynlegt,“ sagði Þórunn Einarsdóttir, formaður.
Frá fundinum í FS í gær. Þórunn Einarsdóttir, formaður samtaka stofnfjáreigenda Spkef í ræðupúlti.