Fundur fyrir atvinnurekendur á Sjómannastofunni Vör
Atvinnuteymi Grindavíkurbæjar boðar til fundar í Sjómannastofunni Vör miðvikudaginn 6. mars kl. 14. Fundurinn er sérstaklega ætlaður fyrirtækjum sem eru með eða hyggjast vera með starfsemi í Grindavík, segir á vef bæjarfélagsins.
Á fundinn kemur Magnús Tumi Guðmundsson prófessor og fer yfir mögulega þróun varðandi eldgos og umbrot í og við Grindavík og áhrif þess á atvinnulíf í bænum.
Vinna við gerð öryggisáætlana fyrir fyrirtækjarekstur í Grindavík hefur staðið yfir að undanförnu. Böðvar Tómasson verkfræðingur hjá Örugg verkfræðistofu kynnir gerð öryggisáætlana og fjallar um almennar og sértækar kröfur vegna aðstæðna í bænum. Þessi vinna hefur verið unnin með þátttöku nokkurra fyrirtækja í bænum og gefst kostur á að ræða hvernig þau fyrirtæki eru að ganga frá sínum öryggisáætlunum.