Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fundu útlending sofandi í fellihýsinu
Föstudagur 9. júlí 2010 kl. 10:37

Fundu útlending sofandi í fellihýsinu

- afsakaði sig og ætlaði svo að halda áfram að sofa

Maður af erlendum uppruna fannst sofandi í fellihýsi utan við íbúðarhús í gróinni götu í Keflavík í morgun. Eigandi fellihýsisins kom að útlendingnum sofandi í fellihýsinu. Útlendingurinn baðst afsökunar, talaði um peningaleysi og endurtók orðið „flugvöllur“ nokkrum sinnum. Síðan lagðist hann á hina hliðina og ætlaði bara að sofa áfram.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eigandi fellihýsisins þurfti að vera ákveðinn til að koma næturgestinum út. Það vakti hins vegar athygli að hann var án farangurs og yfirhafnar, sokkalaus en með aukapar af skóm.

Í samtali við Víkurfréttir nú í morgun sagði húsfreyjan á heimilinu að hugsanlega hafi óboðni næturgesturinn verið fleiri en eina nótt í fellihýsinu. Hún hafi komið inn í vagninn fyrir tveimur dögum og þá hafi verið brauðpoki á borði. Hún hafi ályktað að eigimaðurinn hafi gleymt pokanum á borðinu. Í morgun voru auk brauðpokans kominn annar poki undan brauði úr Bónus, safaferna, gosdósir og niðursuðudós.

Það gekk mikið á að koma hinum óboðna gesti í burtu í morgun svo hægt væri að ferðbúa fellihýsið fyrir ferðalag helgarinnar. Eigendur fellihýsisins hafi hins vegar hugsað málið aðeins eftirá og finnst hugsanlegt að maðurinn sé alls ekki á leið í flugstöðina, enda farangurslaus og eins og að framan segir, án sokka og yfirhafnar. Það er því hugsanlegt að hann sé að leita sér að næturstað í öðrum tjaldvagni eða fellihýsi í húsgarði í Reykjanesbæ.

Óboðni gesturinn hafði bæði sofið og matast í fellihýsinu.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í og við fellihýsið í Keflavík nú í morgun. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson