Fundu svima þegar skjálftinn reið yfir
Grindvíkingar sem Víkurfréttir hafa rætt við fundu jarðskjálftann nú á sjöunda tímanum. Þeir sem voru utandyra fundu hvernig jörðin dúaði undir þeim og lýsa því þannig að þeir hafi fundið fyrir svima.
Óskar Sævarsson, forstöðumaður Saltfisksetursins í Grindavík, sagðist hafa verið úti við smíðar þegar stærsti skjálftinn kom. Þrátt fyrir allt sem undan er gengið í jarðskjálftum við Grindavík, þá hafi hann ekki áttað sig strax á hvað var að gerast. Hann hafi fundið fyrir sterkri svimatilfinningu þegar skjálftinn reið yfir.
Jarðvísindadeild Veðurstofu Íslands hefur greint skjálftann. Hann mældist 4,2 og varð kl. 18:13:19 og upptökin voru 2.0 km. VSV af Krísuvík eða við Fagradalsfjall.
Loftmynd: Ellert Grétarsson