Fundargestir reknir út - „Á ég að hringja á lögregluna?“
Allt var á suðupunkti í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs í kvöld. Þá var haldinn aukafundur í bæjarstjórninni þar sem nýr meirihluti hefur náð völdum í Garði eftir að Kolfinna S. Magnúsdóttir gekk úr röðum D-listans yfir til N-listans, sem nú myndar meirihluta með L-lista.
Á bæjarstjórnarfundinum í kvöld dró til tíðinda þegar nýkjörinn forseti bæjarstjórnar, Jónína Holm, tók orðið af Ásmundi Friðrikssyni bæjarstjóra þegar umræður voru um fundargerð skólanefndar. Jónína sendi bæjarstjóra til sætis og lokaði jafnframt bæjarstjórnarfundi en fundarsalur bæjarstjórnar var þétt setinn og fjölmargir stóðu einnig á göngum bæjarskrifstofunnar. Áheyrendur létu í sér heyra yfir ákvörðun Jónínu að loka fundinum. Þegar áheyrendum var vísað úr salnum sagði Jónína „Á ég að hringja á lögregluna?“.
Ekki voru allir á því að yfirgefa fundarsal bæjarstórnar og var því brugðið á það ráð að draga fellivegg fyrir fundarsalinn og loka þannig áheyrendur út af fundinum.
Talsverð mótmæli voru utan við fundarsal bæjarstjórnar. Einn fundargestur, Reynir Þorsteinsson fv. formaður skólanefndar, sagðist ætla að kæra fundinn til ráðuneytis þar sem brotið hafi verið á bæjarbúum að fá að fylgjast með fundinum.
Þegar umræðum um fundargerð skólanefndar lauk var fundurinn opnaður aftur og fjölmenntu þá bæjarbúar aftur inn á fundinn.
Meira um fundinn í Garði hér á eftir.
Jónína Holm, forseti bæjarstjórnar, lokar fundarsal bæjarstjórnar Garðs nú í kvöld. Á efri myndinni má sjá fundargesti streyma út úr fundarsalnum. Einn þeirra lemur á glervegginn til að láta óánægju sína í ljós. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson